15.1 æðstu prestarnir…öllu ráðinu:Sjá athugagrein við 8.31 (öldungarnir, æðstu prestarnir).

15.1 Pílatusi:Rómverjinn Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu frá 26 til 36 e. Kr. Rómverjar heimiluðu öldungaráði Gyðinga að kveða upp dauðadóma, þegar um meiri háttar brot á gyðinglegum lögum var að ræða. En öldungarnir vildu, að Jesús yrði af Pílatusi fundinn sekur um að hafa brotið gegn lögum Rómverja og hann dæmdur til dauða á krossi. Sjá og “Pontíus Pílatus”.

15.2 konungur Gyðinga: Hver sá sem segðist vera konungur án vitundar og samþykkis Rómverja hlaut að vera uppreisnarmaður. Leiðtogar Gyðinga töldu ekki, að Jesús væri konungur, þótt einhverjir landsmanna kunni að hafa trúað því, að hann væri hinn langþráði Messías (sjá athugagreinar við 8.29 og 11.10).

15.6 lausan einn bandingja: Samkvæmt venju gáfu Rómverjar einum fanga frelsi á páskunum.

15.7 Barabbas: Nafnið merkir “sonur Abba.” Barabbas hafði orðið mannsbani í óeirðum sem stofnað var til í því skyni að hrinda yfirráðum Rómverja af gyðingaþjóðinni.

15.9,10 konung Gyðinga…æðstu prestarnir: Sjá athugagreinar við 15.2 (konungur Gyðinga) og 8.31 (öldungarnir, æðstu prestarnir).

15.13 Krossfestu: Krossfesting var sú aðferð sem algengust var með Rómverjum þegar brotamenn voru teknir af lífi. Krossdauði var þjáningarfullur dauðdagi og var dauðinn oft lengi að fara á menn. Sjá “Krossfesting” í orðtakasafni.

15.16 höllina:Antoníusar-virkið, þar sem rómverski landstjórinn hafðist við þegar hann var staddur í Jerúsalem.

15.17 purpuraskikkju:Líklega yfirhöfn rómverks hermanns.

15.21 Símon frá Kýrene, faðir þeirra Alexanders og Rúfusar:Kýrene var bær í Norður-Afríku. Símon var trúlega Gyðingur á ferð í Jerúsalem til þess að halda páskahátíðina. Alexander og Rúfus geta hafa verið kunnir fyrstu lesendum Markúsarguðspjalls. Þeir eru þó hvergi annars staðar nefndir á nafn í Nýja testamentinu, þótt ekki sé hægt að útiloka, að Rúfus gæti verið sá sem Páll sendir kveðju sína í Róm 16.3.

15.22 Golgata, það þýðir hauskúpustaður: Staðurinn var sennilega nærri kletti í laginu eins og höfuðkaupa manns.

15.23 vín, blandað myrru: Myrran var líklega safi búinn til úr eitraðri jurt, mjög beiskri á bragðið, sem kölluð var gall. Drykkju menn safann, deyfði það sársauka.

15.26 Konungur Gyðinga: Sjá athugagrein við 15.2.

15.31 æðstu prestarnir…fræðimennirnir: Sjá athugagreinar við 8.31 (öldungarnir, æðstu prestarnir) og 12.38 (fræðimennirnir).

15.32 Kristur, konungur Ísraels: Sjá athugagreinar við 8.29 (Kristur) og 15.2 (konungur Gyðinga). Menn vænatu þess, að Messías væri búinn styrkleika frá Guði. Jesús gerði ekki minnstu tilraun til þess að forða sér ofan af krossinum og því voru margir vantrúaðir á það, að hann gæti verið Messías.

15.34 Elóí…lama sabaktaní: Arameíska, sem töluð var í Palestínu (sjá og athugagrein við 5.41-42).

15.35 Elía: Nafnið Elía hljómar ekki ólíkt “Elóí”, sem þýðir “Guð minn.” Sjá og athugagrein við 6.15.

15.38 fortjald musterisins: Tvö slík veggtjöld voru í musterinu. Annað var við fordyrið, en hitt skildi að Hið heilaga og Hið allrahelgasta. Samkvæmt trúarhugmyndum Gyðinga var bústaður Guðs á jörðinni í Hinu allrahelgasta (2Mós 26.31-33). Þar var sáttmálsörkin og kerúbar sem breiddu vængi sína yfir hana. Hér er líklegast átt við síðarnefnda tjaldið. Inn fyrir það mátti enginn ganga nema æðstipresturinn. Þegar höfundur Markúsarguðspjalls segir frá því að fortjaldið hafi rifnað í tvennt við dauða Jesú, þá er merking viðburðarins í huga hans sú, að hér var færð fórn sem gerði öllu fólki kleift að nálgast Guð í helgidómi hans, líka heiðingjum (þeim, sem ekki voru Gyðingar).

15.39 hundraðshöfðinginn…sonur Guðs: Þessi rómverski liðsforingi hefur að öllum líkindum verið heiðingi. Höfundi guðspjallsins hefur þótt skipta miklu að halda því til haga, að eftir að Jesús hafði gefið upp andann, skyldi heiðingi verða fyrstur til þess að kveða upp úr um það, að hann hefði verið “sonur Guðs.” Fagnaðarerindið um Jesú, sem dó fórnardauða til syndafyrirgefningar, mega allir menn taka til sín, jafnt Gyðingar sem heiðingjar. Sjá og athugagrein á bls. 1812 (fagnaðarerindið… Guðs sonur).

15.40,41 María Magdalena, María…og Salóme: Sjá athugagrein við 16.9.

15.42 hvíldardag: Sjá athugagrein við 1.21 (hvíldardaginn). Þar sem hvíldardagshelgin hófst við sólarlag, reið á að búa líkama Jesú til greftrunar áður en kvöldsett yrði. Það hefði verið brot gegn boðorðinu um hvíldardaginn að sinna slíku á þeim degi.

15.43 Jósef frá Arímaþeu: Arímaþea var lítið þorp í héraðinu Efraím, rúma 30 kílómetra norðvestur af Jerúsalem. Jósef átti sæti í öldungaráðinu og naut virðingar. Hann hætti því til, að blettur félli á orðstír hans, er hann kom hér að greftrun Jesú með myndarlegum hætti.

15.44 Pílatus…hundraðshöfðingjann: Sjá athugagreinar við 15.1 (Pílatus) og 15.39 (hundraðshöfðinginn).

15.46 línklæði: Lík voru ekki lögð í líkkistur, heldur sveipuð klæði. Sjá og “Greftrun” á bls. 1896.

15.46 gröf: Sjá athugagrein við 6.29.

15.47 María Magdalena: Sjá athugagrein við 16.9 (María Magdalena).