7.1-3 Melkísedek…prestur Guðs Hins hæsta…um aldur: Sjá athugagrein við 5.6 (Melkísedek). Abraham vottaði Melkísedek virðingu sína með því að gefa honum tíund af öllum eigum sínum (1Mós 14.18-20). Hebreska nafnið „Melkísedek“ þýðir réttlátur konungur. „Salem“, þar sem hann ríkti, merkir friður. Bæði nöfnin minna á, að Kristur færir réttlæti og frið.

7.5 Levísonum…er boðið að taka tíund af lýðnum: Samkvæmt lögmáli Móse skyldu Ísraelsmenn gjalda Guði tíund af tekjum sínum. Þessi fórn eða skattur var afhentur prestunum, afkomendum Leví, en hann var einn af tólf sonum Jakobs ættföður (1Mós 35.23-26; 4Mós 18.20-32). Þegar Ísraelsmenn tóku sér Kanaansland til eignar og skiptu á milli ættkvíslanna tólf, fengu afkomendur Leví ekkert í sinn hlut (4Mós 1.47-53). Í þess stað var þeim falið að þjóna Guði og hafa á hendi helgihaldið og guðsdýrkunina. Því var Levítum heimilt að taka við tíund af landbúnaðar- og kvikfjárafurðum manna og hafa sér og fjölskyldum sínum til lífsviðurværis.

7.6 blessaði þann er fyrirheitin hafði: Höfundur Hebreabréfsins kveður Meskísedek meiri en Abraham, enda hafi sá fyrrnefndi blessað hinn síðarnefnda (1Mós 14.20).

7.9-11 Leví…Fyrirmæli um presta…ekki að hætti Arons? Sjá athugagrein við 7.5. Aron var af ættkvísl Leví. Hann hjálpaði Móse bróður sínum að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi og varð fyrstur manna æðsti prestur í Ísrael (2Mós 28.1; 4Mós 18.1-7).

7.13-15 Drottinn vor er af Júda ætt…líkur Melkísedek: Í Matteusarguðspjalli er ætt Jósefs í Nasaret ekki rakin til Leví, heldur til Júda, forföður Davíðs konungs (1Mós 49.8-10; Matt 1.1-17). Melkísedek var alls óskyldur prestaættinni, sem frá Leví var komin. Höfundur Hebreabréfsins skrifar, að hvorki Melkísedek né Jesús hafi því orðið æðstu prestar samkvæmt lögmáli Móse, heldur af því að í þeim býr líf og kraftur sem þrýtur ekki (7.16), en það gildir ekki um prestana af Levíætt, sem eru dauðlegir menn (7.8).

7.22 Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála: Jesús er meðalgangari hins nýja sáttmála, af því að hann bar fram sjálfan sig sem fórn fyrir Guði til syndafyrirgefningar. Það þýðir þó ekki, að gamli sáttmálinn sem reis á lögmáli Móse sé að engu orðinn (Matt 5.17; Róm 3.31). En allir þeir, sem á trúa á Jesú, hinn mikla æðsta prest, munu vissulega sjá hjálpræði Guðs (Gal 3.1-14).

7.25 til fulls frelsað: Eða „frelsað um eilífa tíð.“

7.26 æðsta prests…syndurum…himnunum hærri: Sjá athugagreinar við 2.7 og 1.3 (hreinsaði okkur af syndum okkar). „Himnunum hærri“ gæti þýtt „meiri en englarnir“.

7.28 Lögmálið skipar presta…eiðurinn…skipar æðsta prest sem er sonur: Í lögmáli Móse er m.a. kveðið á um skyldur prestanna. En fyrirheiti Guðs þess efnis, að mannkynið yrði leyst frá syndum sínum, rættist í syni hans Jesú Kristi. Sjá Slm 110.4 og athugagrein við 2.17.