4.1 þjóna Krists: Páll kallar oft sjálfan sig þjón, sem þýðir bókstaflega „þræll“ Krists. Sjá og athugagrein við 2.1 (leyndardóm).

4.5 áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið: Sjá athugagrein við 1.7. Þegar Jesús kemur aftur, segir Páll, þá mun hann opinbera alla leyndardóma Guðs, og leysa úr öllum þeim ráðgátum, sem eru ofvaxnar mannlegum skilningi.

4.6 Apollós: Sjá athugagrein við 1.11,12.

4.9 Guð hafa sett okkur postulana sísta allra: Sjá athugagrein við 1.1. Páll hafði, eins og fleiri postular, mátt þola hungur, þorsta, aðhlátur, pyndingar og fangavist.

4.15 hafið þið þó eigi marga feður: Páll áleit sig réttilega „föður“ Korintumanna í trúnni. Sjá og Gal 4.19 og 1Þess 2.7,8.

4.17 Tímóteus: Páll sendi hinum kristnu í Korintu Tímóteus, samstarfsmann sinn, í því skyni að hann héldi þar áfram þeirri kennslu, sem Páll hóf. Tímóteus var sonur gyðing-kristinnar móður og grísks föður frá Lýstru. Sjá og 2Kor 1.1; 1Þess 1.1; Fílm 1.

4.19 hina mikillátu: Hér á Páll trúlega við þá, sem hann kallar „hina stórmiklu postula“ í 2Kor 12.11. Þeir töldu sig búa yfir sérstakri speki og því yfir Pál og hina postulana hafna.

4.20 Guðs ríki: Ríki Guðs er veldi hans í þessu lífi og hinu komanda. Það er gert opinbert í verkum Krists og lífi lærisveina hans.