9.1 stjörnu er fallið hafði af himni…brunni undirdjúpsins: Fimmti engillinn boðar plágur, sem herja munu á þjóðir heims. Til forna var algengt að menn teldu stjörnurnar vera lifandi verur, líkt og engla. Brunnur undirdjúpsins er helheimur, þar sem vondar og óhlýðnar sálir bíða dóms, marandi í bleytuhelli.

9.3-10 engisprettur…sporðdrekar: Víða í Biblíunni koma engisprettur fyrir og eru þá gjarnan til marks um reiði Guðs og þá hegningu, sem óvinir hans eiga í vændum. Sjá „Engisprettur“ á bls. 1604. Þessar engisprettur hér hafa hala sporðdrekans. En þær stingandi engisprettur skaða einungis þá, sem ekki hafa innsigli Guðs á enni sér (Sjá 7.1-4).

9.11 Abaddón…Apollýón: Hebreska orðið „Abaddon“ og gríska orðið „Apollýon“ þýða bæði „eyðilegging“.

9.14 fljótið mikla, Efrat: Áin Efrat rann á eystri mærum þess landsvæðis, sem Guð hét að gefa Abraham og afkvæmi hans (sjá 1Mós 15.18; 5Mós 11.24; Jós 1.4). Á ritunartíma Opinberunarbókar Jóhannesar voru þessi sömu skil landamerki rómverska heimsveldisins til austurs. Handan Efratfljóts bjuggu Parþar, sem þóttu aldrei nein lömb að leika sér við.

9.20 skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré: Ýmsir hættu ekki að tilbiðja hjáguði þrátt fyrir þessar miklu hörmungar. Þeir sem gerðu sér líkneski og „eftirlíkingar af því sem er á jörðinni“, og dýkuðu þetta, óhlýðnuðust þar með lifanda Guði (2Mós 20.4-6). Reynt var að þrýsta hinum kristnu á dögum Jóhannesar til þess að göfga heiðin goð og falla fram fyrir keisaranum, sem guð væri. Sjá innganginn að Opinberunarbókinni á bls. 2308.

9.21 töfrum, frillulífi: Sumir þegnar rómverska heimsveldisins lögðu stund á galdur, þótt blátt bann væri lagt við slíku í lögmáli Móse (3Mós 19.26). Þetta kukl hefur trúlega mestmegnis verið tilraunir til að teygja sálir dauðra til þess að vinna furðuverk (sjá Post 8.9-11). „Frillulífi“ er ósiðlegt líferni og getur bæði margt og mikið falist í þeim orðum (t.d. 2Tím 3.1-6).