2.2 segja sjálfa sig vera postula: Falskennendur hafa sýnilega verið að verki innan safnaðarins í Efesus. Það hefur reynst einlægum játendum Krists erfitt að standa í gegn óhollum áhrifum þessara villumanna (2.3).

2.6 Nikólaítanna: Þeir kunna að hafa sagst vera áhangendur Nikolásar frá Antíokkíu (Post 6.5), og etið kjöt sem fórnað hafði verið skurðgoðum ellegar beinlínis tilbeðið hjáguði (sjá 1Kor 8.7-13; 10.19-21; Opb 2.14,15).

2.8 Smyrnu: Um það bil 70 árum áður en Opinberunarbókin var rituð, byggðu menn í Smyrnu musteri helgað Tíberíusi, keisara í Róm. Sjá og Jes 44.6; 48.12; Opb 1.17; 22.13.

2.9 fátækt: Sumir hinna kristnu í Smyrnu voru trúlega fátækir innflytjendur frá Galíleu og Júdeu, sem flúið höfðu frá Palestínu í uppreisn Gyðinga gegn Rómverjum 66 til 74 e. Kr.

2.9 segja sjálfa sig vera Gyðinga: Hér kann að vera átt við fyrirmenn Gyðinga í Smyrnu sem sökuðu hina kristnu um að vera til vandræða, e.t.v. með því að óhýðnast rómversku yfirvöldunum.

2.10 Djöfullinn…fangelsi: Í þessu versi eru “djöfullinn” trúlega þeir sem vinna verk djöfulsins.

2.10 kórónu lífsins: Þ.e. dýrðarlíf.

2.11 sá annar dauði: Fyrst er líkamsdauðinn, en “sá annar dauði” er dauði sálar eða anda, missir eilífa lífsins, eða refsing án enda (sjá og Opb 20.5,6,14; 21.8).

2.12 Pergamos: Borgin var fræg fyrir ágætt bókasafn og fjölda mustera sem helguð voru heiðnum goðum. Mikilfenglegt Seifsaltari stóð uppi á hæð og brá stórum svip yfir umhverfið. Í Pergamos var miðstöð tilbeiðslu lækningaguðsins Asklepíosar.

2.13 þar sem hásæti Satans er: Hér kann að vera sveigt að því að Pergamos sé háborg keisaradýrkunarinnar, eða ef til vill er átt við Seifsaltarið.

2.13 Antípasar: Antípas þessi hefur að líkindum ekki viljað tilbiðja keisarann. Hann hefur verið líflátinn kristnum mönnum til viðvörunar.

2.14 kenningu Bíleams: Bíleam var sakaður um að hvetja til fylgis við kanverska guðinn Baal Peór (sjá 4Mós 25.1-3; 31.16).

2.15 kenningu Nikólaíta: Sjá athugagrein við 2.6.

2.17 hinu hulda manna: Í eyðimörkinni lét Drottinn brauði handa fólkinu rigna af himni og kölluðu Ísrelasmenn það manna. Sjá 2Mós 16.

2.17 hvítan stein: Það má hugsa sér að steinninn veiti aðgang að borðhaldi Drottins, þar sem “hins hulda manna” er neytt.

2.18 í Þýatíru: Þessi verslunarborg var þekkt fyrir vefnað, litarefnagerð, drifsmíði, leðuriðju og leirbrennslu. Sjá og Post 16.14,15.

2.20 Jessabel: Þessi kona er hér trúlega kölluð Jessabel í því skyni að jafna henni við Jesebel drottningu Akabs, sem gjörði það sem illt var í augum Drottins og sagt er frá í Fyrri og Síðari Konungabók (sjá 1Kon16.31-33; 19.1,2; 21.1-26; 2Kon 9.22,30-37).

2.20 afvegaleiðir þá…eta kjöt helgað skurðgoðum: Hagsmunafélög iðnaðar- eða verslunarmanna voru kölluð “gildi” og héldu stundum svallsamar samdrykkjur í hofunum, helgaðar heiðnum goðum. Ef kristnir menn neituðu að taka þátt í þessu, áttu þeir á hættu að þurfa að sjá á bak kunningjum og missa viðskiptasambönd. En slægjust þeir hins vegar í hópinn voru þeir um leið orðnir ótrúir Kristi. Sjá og athugagrein við 2.6.

2.23 áhangendur hennar: Eða “börn hennar.”

2.28 morgunstjörnuna: Venjulega er átt við reikistjörnuna Venus, en hér er orðið notað um Krist (sjá 22.16). Sjá og 4Mós 24.17; 2Pét 1.19.