3.1 Nikódemus, af flokki farísea…í öldungaráði Gyðinga: Nikódemus kemur til Jesú um nótt, trúlega til þess að ekki verði gert uppskátt um fund þeirra. Hann er einungis nefndur á nafn í Jóhannesarguðspjalli (7.50; 19.39). Sjá og athugagreinar við 1.24 (farísear) og 1.19,20 (ráðamenn).

3.3 Guðs ríki: Guðs ríki er enginn tiltekinn staður, heldur hvarvetna þar sem Guðs vilji ræður og börn hans hlýða honum með því t.d. að þjóna öðrum í þolinmæði og kærleika og útbreiða fagnaðarerindið um Jesú Krist.

3.5 nema hann fæðist af vatni og anda: Sjá athugagreinar við 1.26 og 1.33 (skírn) og 1.32 (andi).

3.6 Guðs barn: Gyðingar litu á sig sem Guðs börn þar eð þeir væru afkomendur Abrahams. Jesús segir, að gyðinglegur uppruni og hlýðni við lögmál Móse nægi ekki lengur til þess að vera Guðs barn. Sjá og Gal 3.1-5, 26-29.

3.10 lærifaðir í Ísrael: Nikódemus var farísei og þess vegna líka kennari í helgiritum Gyðinga.

3.13 Mannssonurinn: Sjá athugagrein við 1.51.

3.14 Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni: Jesús segir, að hann muni sjálfur verða hafinn upp eins og höggormurinn, sem Móse setti á stöng til þess að lækna fólkið af höggormsbiti í eyðimörkinni (4Mós 21.4-9). Á sama hátt muni Jesús verða negldur upp á kross og hver sá bjargast frá dauðanum sem trúir á hann.

3.15 eilíft líf: Sjá “Eilíft líf”.

3.22 Júdeuhérað: “Júdea” er latneska mynd orðsins “Júda”. Júdea laut rómverskri stjórn á dögum Jesú.

3.22 skírði: Sjá athugagreinar við 1.26 og 1.33.

3.23-24 Aínon nálægt Salím: Ekki er með vissu vitað um þennan stað, en gera má ráð fyrir að hann hafi verið vestan við ána Jórdan þar sem voru vatnsuppsprettur.

3.25 hreinsun: Gyðingar fóru eftir ströngum reglum sem mæltu svo fyrir að nema þeir þvægju sér og hreinsuðu matarílátin mættu þeir ekki tilbiðja Guð. Sjá og “Hreinsanir (hreint og óhreint)”.

3.26 Rabbí: Sjá athugagrein við 1.38.

3.28 Kristur: Sjá athugagrein við 1.19,20.

3.31 Sá sem kemur að ofan…af himni: Sjá athugagreinar við 1.34 (Guðs sonur) og 3.12 (Guðs sonur).

3.34 Sá sem Guð sendi…andann: Sjá athugagreinar við 1.34 (Guðs sonur) og 1.32 (Heilagur andi).