Útvalin, vernduð og frelsuð

Þar sem söfnuðurnir mega reyna margt mótdrægt, eru þeir í upphafi bréfsins minntir á það, að Guð hefur útvalið þá (1.2) og verndar þá allt til þess dags, þegar Jesús Kristur kemur aftur (1.7). Þeir geta þess vegna treyst því, að þeir muni hljóta hjálpræðið samkvæmt fyrirheiti Guðs (1.5). Þegar Jesús var reistur upp frá dauðum, gaf Guð söfnuði sínum nýtt líf og að auki lifandi von, sem lýsir og leiðir gegnum sérhvert jarðneskt böl.  

* Litla-Asía á fyrstu öldinni e. Kr.: Héruðin fimm, sem nefnd eru á nafn í Fyrra Pétursbréfi, Pontus, Galatía, Kappadókía, Asía og Biþýnía, voru öll í miðri og norðurhluta Litlu-Asíu (1.1). Sumir íbúar þeirra sömdu sig að siðum Grikkja, en aðrir höfðu á sér háttu þjóðanna í austri (þar sem nú er Íran). Þá hafði og fjöldi Gyðinga sest að á þessum slóðum. Páll postuli boðaði fagnaðarerindið í Galatíu og sums staðar í Asíu, en ekki er frá því greint í Nýja testamenti, að hann hafi komið til þeirra héraða annarra, sem minnst er á í Fyrra Pétursbréfi. Vera má, að Pétur postuli hafi komið þangað nokkru fyrr en Páll hóf kristniboðsstarf sitt.

* Pétur postuli Jesú Krists: Hann hét Símon, en gékk einnig undir nafninu Pétur, sem þýðir „klettur.“ Eftir jarðvistardaga Jesú varð Pétur einn helsti leiðtogi frumkirkjunnar (sjá Post 2-5; 9.32-12.19; 15.3-21).

„Postuli“ merkir í Fyrra Pétursbréfi sá, sem af Guði er útvalinn til þess að breiða út

boðskapinn um Jesú Krist. „Kristur“ er sama og gríska orðið christos,en það er á hebresku „Messías“, sem þýðir „hinn smurði“ eða „hinn útvaldi.“ Það er messíasar-titill Jesú og má ýmist hafa á undan nafni hans eða á eftir. Sjá „Drottinn„.

1.1 hinum útvöldu…sem útlendingar dreifðir: Kallað var, að Gyðingar sem sest höfðu að utan Palestínu, byggju í „dreifingunni“ (diaspora). Þó mun hér trúlega átt við heiðing-kristna menn í norðanverðri Litlu-Asíu. Líka má hugsa sér, að kristnum mönnum sé líkt við útlendinga, af því að líferni þeirra stingur um margt í stúf við það sem er til siðs hjá heiðnum samborgurum þeirra (sbr. Fil 3.20).

1.2 Guðs föður og helgaðir af anda hans: Jesús kallaði Guð föður (sjá t.d. Jóh 14). Páll gerir eins í mörgum bréfa sinna (1Kor 1.3; Gal 1.2,3; Fil 1.2; Róm 1.7).

„Andi hans“ er heilagur andi. Gríska orðið, sem hér er þýtt með „helgaðir“ merkir „fráteknir handa Guði“, kallaðir til þess að fara að vilja hans. Sjá „Heilagur andi„.

1.2 hreinsast með blóði hans: Í 2. Mósebók 24.3-8 segir frá því, er Móses stökkti blóði nauta á fólkið því til staðfestingar, að Ísraelslýður héldi sáttmálann, sem Drottinn hefði við hann gert, héti að hlýða Drottni og gera allt sem hann hefði boðið. Að kristnum skilningi staðfestir blóð Jesú Krists eilífan sáttmála á milli Guðs og manna (sjá og Heb 9.18-22).

1.3 faðir…upprisu Jesú Krists frá dauðum: Sjá athugagrein við 1.2 (Guðs föður…). Sjá og „Drottinn“ á bls. 2010. Drottinn Guð reisti Jesú upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann dó á krossinum (Matt 28.1-10; Post 2.22-24). Sjá og „Upprisan„.

1.4 arfleifð sem yður er geymd á himnum: Þessi arfleifð er eilíft líf, sem Guð hefur heitið þeim, sem elska hann og treysta og trúa á Jesú Krist (sjá Jóh 14.1-6; Kól 3.1-4; 1Þess 4.13-18; Heb 4.1-11. Sjá „Eilíft líf„.

1.5 yður sem trúið…á efsta degi: Að trúa merkir hér að treysta Guði. Í mörgum bréfa Nýja testamentis ræðir um endurkomu Jesús Krists (1Kor 15.20-28; Fil 1.10; 2.16; 3.20,21; 1Þess 4.13-18). Sjá „Endurkoman„.

1.7 dýrmætari en…gull…reynt í eldi: Það er nefnt „skíragull“, sem í eldi hefur verið hreinsað af öðrum efnum. Hið sama á við um trúna. Þegar hún hefur verið prófuð í „eldi“ freistinga og mótlætis, verður hún sterkari og hreinni eftir.

1.9 að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar: Orðið „frelsun“ þýðir hið sama og „hjálpræði“ og merkir í Biblíunni allt það sem Guð hefur gert og gerir enn til þess að frelsa mennina frá synd og dauða. Sjá „Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)„.

1.10-12 spámennirnir: Í spádómsbók Jesaja ræðir um þjón Drottins, harmkvælamann og kunnugan þjáningum, sem síðar verður langra lífdaga auðið og hlotnast heiður og sess meðal stórmenna (Jes 49.1-6; 50.4-7; 52.13-53.12). Þegar í frumkristni var farið að líta á Jesú Krist sem þann Messías (hinn smurða, útvalda), sem ritað er um af spámönnum Gamla testamentis (Jes 9.6-7; 11.1-9; Mík 5.2-5).

1.12 Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast: Orðið „engill“ er sama orðið og angelos á grísku, en það þýðir sendiboði. Englar eru þjónar og sendiboðar Guðs.

Útvalin, heilög þjóð víðfrægi með líferni sínu dáðir Drottins.

Guð hefur útvalið nýja, heilaga þjóð, sem á að vera konunglegur prestdómur, þjóna honum og hegða sér vel meðal þjóðanna. Hún má búast við þrengingum í eftirfylgdinni við Krist, á sama hátt og hann þjáðist fyrir hana. Krists vinum er sagt, hvernig þeir skuli koma fram hver við annan; þeim ber líka að virða gamla vini og háttsemi þeirra, sem oft og tíðum fer í bága við hið nýja líf endurfæðingarinnar.

1.13 við opinberun Jesú Krists: Sjá athugagrein við 1.5 (yður sem trúið…á efsta degi).

1.14 girndum: Bréfritarinn hvetur lesendur sína til þess að láta af löstum og brotum eins og ofdrykkju, saurlifnaði og skurðgoðadýrkun (þ.e. tilbeiðslu á heiðnum guðum og gyðjum (sjá 4.1-4).

1.17 föður: Sjá athugagrein við 1.2 (Guðs föður).

1.18 frelsaði ykkur…frá fánýtri hegðun ykkar: Gríska sögnin, sem hér er þýdd með „frelsaði“, merkir oft – og þó ekki ávallt – „að greiða lausnargjald til þess að leysa þræl eða fanga.“ Með „fánýtri hegðun“ er átt við framferði lesendanna áður en þeir urðu hlýðin Guðs börn (sjá 1.14; 4.1-4).

1.19 frelsaði ykkur…með dýrmætu blóði Krists…hins lýtalausa og óflekkaða lambs:

Á friðþægingardaginn ár hvert fórnuðu prestarnir skepnu og var blóði hennar stökkt á lok sáttmálsarkarinnar (náðarstólinn). Þannig var friðþægt fyrir syndir Ísraelsmanna (3Mós 4.1-6.30; 16.1-34).

Dauði Jesú á krossinum var að skilningi Nýja testamentis sonarfórn til syndafyrirgefningar (Róm 3.25,26). Blóði Jesú er líkt við blóð óflekkaðs lambs, sem færir fyrirgefningu synda (Heb 9.23-28; 1Jóh 1.7).

1.25 fagnaðarerindið: Fagnaðarerindið (sbr. guðspjall, á ensku „gospel“) er hvort tveggja í senn boðskapurinn um Jesú og boðskapur Jesú um Guðs ríki. Þeir sem treysta Jesú og trúa gleðiboðskapnum verða lærisveinar hans og heyra til Guðs lýð (sjá og Róm 1.16,17).