3.1,2 Tíberíusar…Annasar og Kaífasar: Tíberíus Kládíus Sesar var keisari í Róm frá 14-37 e. Kr. Fimmtánda stjórnarár hans hefur því verið árið 29. Tíberíus skipaði Pontíus Pílatus landstjóra í Júdeu. Pílatus gegndi því embætti um 10 ára bil, frá 26-36 e. Kr.
Sá Heródesinn sem var fjórðungsstjóri í Galíleu á þessum árum var Heródes Antípas, sonur Heródesar mikla, sem svo var kallaður (sjá athugagrein við 1.5). Heródes Antípas sat á valdastóli frá 4 f. Kr. til 39 e. Kr. Rómverjar settu Filippus, bróður hans, til þess að vera fjórðungsstjóri í Ítúreu og Trakónítishéraði. Fátt er vitað um Lýsanías þennan, sem sagður er hafa ríkt yfir Abílene. Annas var æðstiprestur árin 6 til 15 e. Kr. Tengdasonur hans, Kaífas, gegndi tignarstöðunni frá 18 til 37 e. Kr. Sjá og athugagreinar við 22.54.
3.8 Við eigum Abraham að föður: Jóhannes sagði löndum sínum, að þeir gætu ekki lifað eins og þá lysti af þeirri ástæðu einni, að þeir væru afkomendur Abrahams og Söru. Sjá og Jóh 8.33.
3.8 sinnaskiptum: Sjá „Synd“.
3.12 tollheimtumenn: Rómverjar sömdu við ríka útlendinga um að annast innheimtu skatta. Þeir, að sínu leyti, réðu heimamenn til starfans. Þeir lágu á því lúalagi að krefjast meira en lögboðið var – og stungu mismuninum í eigin vasa. Á dögum Jesú hötuðust margir Gyðingar við tollheimtumennina, álitu þá „óhreina“ svikara.
3.15 Messías: Sjá athugagrein við 2.11 (frelsari…Kristur).
3.16 skíri…heilögum anda og eldi: Vatnsskírn táknaði, að misgjörðir í fortíð væru nú þvegnar af. Eldur er tíðum tengdur dómi Drottins (3.17) eða heilögum anda (Post 2.3). Sjá og „skírn„, „Heilagur andi“ og „Eldur„.
3.16 leysa skóþveng hans: Það viðvik var í verkahring þræla.
3.17 varpskófluna: Bændur notuðu kvísl til þess að kasta hveiti og hismi upp í loftið. Hismið fauk burt, en hveitið féll til jarðar.
3.19 Heródíasar: Hún var frænka Heródesar og eiginkona Filippusar bróður hans (Matt 14.3,4; Mrk 6.17,18).
3.23-38 sonur Jósefs…Guðs: Ætterni skipti Gyðinga geysimiklu máli. Þeir trúðu því, að Messías mundi eiga til Davíðs konungs að telja (Jes 11.1-11). Lúkas rekur hér ættir Jesú allt aftur til Adams og sjálfs Guðs. Berum þessa ættartölu saman við ættartöluna í Matt. 1.1-17.