Vitrun um Guð og lambið

Jóhannes segir frá því er hann sér „einhvern sem situr í hásæti“, sem er Guð, og lamb, sem er Kristur. Báðum lofsyngja 24 öldungar og fjórar verur.

4.3 líkur jaspissteini og sardissteini…smaragður: Hér hefur biblíufróðum lesendum Jóhannesar áreiðanlega komið í hug eðalsteinarnir á brjóstskildi æðsta prestsins í Ísrael (2Mós 28.15-20) og steinarnir dýru, sem konungurinn í Týrus skartaði (Es 28.13)). Sjá og Es 1.26-28; 10.1. Þá hefur regnboginn vísast minnt þá á það, sem Drottinn hét Nóa í 1Mós 9.16,17.

4.4-10 tuttugu og fjögur hásæti…öldungarnir: Öldungarnir tuttugu og fjórir eru líklegast ættfeðurnir tólf í 1. Mósebók (og þess vegna allar ættkvíslir Ísraels) og svo tólf postular Jesú. Til samans tákna þeir allan hinn útvalda lýð Drottins. Hjá flestum þjóðum Austurlanda nær tóku ráðgjafar sér stöðu frammi fyrir konunginum, þar sem hann sat í hásæti sínu. Þá sátu aðalsmenn í Rómaborg ævinlega við hlið keisarans og því er svo að sjá, að öldungarnir tuttugu og fjórir séu meðstjórnendur konungsins (Guðs). Þessi öldungadeild minnir líka á guðaþingið í 82. Davíðssálmi. Hvít klæðin og kórónurnar gætu gefið til kynna, að öldungarnir séu prestar.

4.6 glerhaf: Glerhaf, líkt kristalli táknar væntanlega hreinleika, flekkleysi. Má og vera, að minna eigi á safírhellurnar, sem Guð Ísraels stóð á, þegar hann vitraðist Móse í sýn. Sjá 2Mós 24.10; Es 1.22,23.

4.6-9 fjórar verur: Verurnar fjórar eru lýður Guðs, en í Daníelsbók eru stóru dýrin fjögur aftur á móti veldi hins illa, sem leitast við að undiroka veröldina (Dan 7). Augun mörgu sjá um heim allan. Ljónið, nautið, maðurinn og örninn má hugsa sér að merki forræði, styrk, visku og snerpu. Verurnar lofsyngja Guði án afláts og lofgjörð þeirra endurómar það, sem sexvængjaðir serafarnir hrópuðu hver til annars í helgidóminum þegar Drottinn kallaði Jesaja spámann árið sem Ússía konungur andaðist (Jes 6.2,3).

4.10 Öldungarnir tuttugu og fjórir: Sjá athugagrein við 4.4-10.