Guð fól Jesú að hreinsa og endurnýja ásjónu jarðar

Spámenn Ísraelsþjóðarinnar mæltu við fólkið fyrir munn Guðs. Nú hefur Guð sent Jesú með boðskap frá hæðum, falið honum að hreinsa menn af syndum þeirra og ríkja sem konungur að eilífu.

1.1 Guð talaði...til feðranna fyrir munn spámannanna: Orð hinna fornu spámanna Ísraelsmanna eru varðveitt í helgiritum Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti. Spámennirnir túlkuðu sögu Ísraelsþjóðarinnar og fluttu boð frá Guði um það hversu menn skyldu lifa og haga guðsdýrkun sinni.

„Feðurnir“ eru Ísraelsmenn, afkomendur Abrahams og Söru. Sjá „Abraham„. Í Hebreabréfinu er oft vitnað til fyrirheita Guðs, sem hann gaf Abraham, og lögmáls Drottins, sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. Móse var líka kallaður spámaður, og í Nýja testamenti er Móse látinn eiga við Jesú, þegar hann segir: „Spámann eins og mig mun Guð láta koma fram…“ (Post 3.18-23; 7.37).

1.2 í syni sínum: Í Jesú Kristi. Hann er „orðið“ sem í upphafi var hjá Guði. Allt varð til fyrir hann (Jóh 1.1; Heb 1.1-3; Kól 1.15-17). Og orðið varð hold, þ.e. maður (Jóh 1.14), en er nú að öllu eins og faðirinn og samur honum (Heb 1.3).

1.3 með orði máttar síns: Kristur „ber allt með orði máttar síns“, sem er jafn kröftugt og það sem Guð sjálfur sagði þegar hann skapaði heiminn í öndverðu (1Mós 1).

1.3 hreinsaði okkur af syndum okkar: Þeir sem syndga snúa baki við Guði og óhlýðnast boðum hans. Lögmál Móse mælir svo fyrir, að þeir sem syndga verði óhreinir, óhæfir til þess að taka þátt í guðsdýrkuninni. Þeim, sem svo var ástatt um, var gert að sæta sérstakri, fyrirskrifaðri hreinsunarathöfn áður en þeir voru teknir gildir af lýð Guðs að nýju. En nú, segir höfundur, fyrirgefur Jesús syndirnar með því að þvo þær burt. Sjá og „Synd„.

1.3 til hægri handar: Jesús situr nú við Guðs hægri hönd og ríkir konungur á himnum. Það var sess hins valdamikla virðingarmanns.

1.4 englunum: Guð hefur sett Jesú yfir alla hluti, að englunum meðtöldum; sjá og Fil 2.9,10; Ef 1.21.

1.5 faðir: Jesús kallaði Guð „föður“ (Jóh 14; sjá og Gal 1.2,3; 1Kor 1.3; Fil 1.2). Samband Guðs og hans útvalda, hvort heldur sá er jarðneskur konungur eða sjálfur Jesús, er samband föður og sonar (Slm 2.7; 2Sam 7.14; 1Kro 17.13). Sifjar Guðs og englanna eru ekki eins nánar.

1.6 frumburðinn: Hér er átt við Jesú Krist. Til forna naut elsti sonur mestrar virðingar í bræðrahópnum. Hann stóð auk þess til arfs umfram systkini sín. Í 12.23 ræðir um „söfnuð frumgetinna“, sem merkir þar kristna menn. Héðan í frá njóta öll börn Guðs frumburðarréttar, karlar, konur og ungviði.

1.8 þíns: Í sumum handritum „hans“.

1.14 andar sem þjóna Guði, sendir til að hjálpa þeim sem hjálpræðið eiga að erfa:

Sjá athugagrein við 1.4. Englar koma guðsbörnum til hjálpar uns sá dagur rennur þegar Guð verður sjálfur allt í öllu.

Orðið „hjálpræði“ (frelsun) merkir í Biblíunni allt það sem Guð hefur gert og gerir enn til þess að leysa menn frá syndinni og hinu illa. Sjá og „Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“ og „Eilíft líf„. „Að frelsast“ getur þýtt það sama og „að öðlast eilíft líf.“ Í Hebreabréfinu er þetta líka kallað „að ganga inn til hvíldar hans“ (Heb 4.1,11).