4.1 Farísear: Sjá athugagrein við 1.24.

4.3,4 Júdeu…Galíleu…Samaríu: Sjá athugagreinar við 3.22 (Júdea) og 1.43-44 (Galílea). Samaría var héraðið á milli Júdeu og Galíleu (sjá kort á bls. 2375). Assýringar réðust inn í Ísrael árið 722 f. Kr. og tóku fjölda fólks heim með sér (2Kon 17.5-23). Sumir þeir sem eftir voru gengu að eiga Assýringa og Kanverja. Þeir reistu eigið musteri, vígðu sér presta og túlkuðu lögmál Móse að sínum hætti. Höfuðborg þeirra var Samaría og þeir kallaðir Samverjar. Gyðingar í Júdeu á dögum Jesú höfðu horn í síðu Samverja og töldu þá ótrúa Guði Ísraels.

4.5 Síkar: Þessi borg hét áður Síkem og stóð þar sem Abraham dvaldist fyrst eftir að hann kom til Palestínu (1Mós 12.6). Síðar keypti Jakob landspilduna og reisti þar altari (1Mós 33.18-20). Áður en Jakob dó, gaf hann Jósef syni sínum „eina fjallsöxl“ í námunda við Síkem. (1Mós 48.22; orðaleikur, því að hebreska orðið Síkem þýðir fjallsöxl). Sjá og Js 24.32.

4.6-8 Jakobsbrunnur: Enn í dag má sjá brunn þennan, sem höggvinn var í klett nærri rústum hinnar fornu Síkem. Konan kemur að brunninum um hádegisbil, þegar heitast er og fáir aðrir á ferli.

4.9 Gyðingar…Samverja: Sjá athugagrein við 4.3,4. Reglur um hreint og óhreint meinuðu Gyðingum að umgangast Samverja, hvað þá að drekka úr bollum þeirra eða könnum.

4.9 hafa ekki samneyti: Eða: „nota ekki sömu ílát og Samverjar.“

4.12 Jakob forfaðir okkar: Sjá athugagrein við 4.5. Samverjar voru afkomendur ættfeðra Ísraels engu síður en Gyðingarnir í Júdeu. Konan spyr hvort Jesús telji sig meiri mann en Jakob, sem var þriðji ættfaðirinn og einn mikilsverðastur þeirra.

4.14 eilífs lífs: Sjá athugagrein við 3.15.

4.15 gef mér þetta vatn: Konan heldur að Jesús ætli að gefa henni birgðir vatns sem aldrei þrjóti og hún þurfi ekki lengur að fara út að brunninum í sólarbreiskjunni.

4.16 kallaðu á manninn þinn: Jesús vissi að konan hafði búið með mörgum mönnum, en átti ekki eiginmann (annað hvort af því að hún var fráskilin eða hafði misst manninn sinn).

4.19 spámaður: Stundum birtist spámönnunum framtíðarsýn. Oftar voru þeir þó grandvart fólk og guðhrætt, sem skynjaði hræringar samtíðar sinnar og boðaði orð frá Drottni, er áttu við stað og stund.

4.20 Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli:Samverjar tilbáðu Guð í musteri sem þeir höfðu byggt á Garísím-fjalli nálægt Síkem-þorpi, en Gyðingar einvörðungu í musterinu í Jerúsalem.

4.23 hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda: Sjá athugagrein við 1.32 (andi). Jesús segir, að sönn guðsdýrkun sé ekki bundin við neinn tiltekinn stað. Hún lýsi sér í því að vera leiddur af anda Guðs.

4.25 Messías…Kristur: Sjá athugagrein við 1.41.

4.34 Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig: Í Jóhannesarguðspjalli verður Jesú tíðrætt um að vinna verkið sem Guð fól honum. Hér nefnir hann þetta verkefni „mat.“ Sjá og 3.16,17,34; 5.26; 6.27,33-35; 17.1,2. Síðar kallar Jesús hlutverk sitt „að drekka kaleikinn“ (18.11), en í Biblíunni tákna þau orð oft þjáningu (Jes 51.17,22; Jer 25.15,17).

4.35 fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran…horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru: Uppskerutíminn á þessum slóðum var enn langt undan. Jesús ræðir hér um að safna saman fjölda nýrra lærisveina nú þegar.

4.37 Einn sáir og annar uppsker: Þessi orð gætu þýtt, að þeir sem boða orð Guðs sái, en hinir, sem hjálpa öðrum til þess að læra að treysta Jesú, skeri upp.

4.39 Samverjar: Sjá athugagrein við 4.3,4. Þeir trúðu því að Jesús væri frelsari heimsins af því að konan við brunninn sagði þeim frá því sem hún hafði orðið áskynja.

4.44 spámaður: Sjá athugagrein við 1.19 (spámenn). Margir Samverjar í Síkar og nágreinni lögðu trúnað á það að Jesús væri hinn útvaldi Messías Guðs, en Jesús gékk þess ekki dulinn að ýmsir á heimaslóðum hans, Nasaret í Galíleu, voru ófúsir að líta á hann sem Messías.

4.45 Galíleu…hátíðina í Jerúsalem: Sjá athugagrein við 1.34,44 (Galílea).

4.46 Kana í Galíleu: Sjá 2.1-11 og athugagrein við 2.1 (Kana).

4.46 Í Kapernaúm var konungsmaður: Gríska orðið sem notað er um þennan embættismann bendir til þess að hann hafi verið liðsforingi í her konungsins (Heródesar Antípasar). Sjá athugagrein við 2.12 (Kapernaúm). Konungsmaðurinn og allt hans heimafólk tók trú eftir að sonurinn komst til fullrar heilsu á þeirri stundu sem Jesús hafði sagt að hann mundi læknast (4.53).