6.1 ánauðugir: Í sumum bréfum Nýja testamentis eru þrælar hvattir til þess að sýna húsbændum sínum hollustu og vera kyrrir í sinni stöðu (Ef 6.5-8; Kól 3.22-24), sjá þó einnig Gal 3.26-29. Sjá og „Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú„.

6.5 hugspilltra manna…skoða trúna sem gróðaveg: Sumir villukennendur vildu græða fé á trúfræðslu. En enginn safnar veraldlegum auði með því að heyra söfnuðinum til og fégirndin er enda rót alls ills (6.10).

6.11 þú, Guðs maður: Sjá innganginn að Fyrra Tímóteusarbréfi.

6.12 trúarinnar…eilífa lífið: Sjá athugagreinar við 2.7 (trú og sannleika) og 1.16.

6.13 Pontíusi Pílatusi: Rómverski landstjórinn í Júdeu frá 26 til 36 e. Kr. var Pontíus Pílatus. Hann kvaðst ekki finna nein sök hjá Jesú, en leiðtogar Gyðinga kröfðust þess að hann léti taka Jesú af lífi (Lúk 23.1-5; Jóh 18.33-37).

6.14 allt til endurkomu Drottins: Sjá athugagrein við 4.1 (á síðustu tímum). Páll taldi, að hann lifði það jafnvel sjálfur, að Jesús kæmi aftur (Fil 3.20; 4.5; 1Þess 5.1-11). Sjá og „Endurkoman„.

6.16 Hann…býr í því ljósi: Í Biblíunni táknar ljósið Guð og Guðs orð (Slm 119.105; Jóh 1.4,5; 1Jóh 1.5), og ennfremur fólk og viðburði, sem opinbera sannleika Guðs (Jes 49.6). Lærisveinar Jesú eru stundum nefndir „börn ljóssins“ (Jóh 12.36; Ef 5.8). Í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) segir frá því, er Guð skapaði himin og jörð og bauð: „Verði ljós. Og það varð ljós“ (1Mós 1.3). Í sömu ritum birtist Guð oft í ljósi, t.d. eldsloga (2Mós 3.2,3) og lýsandi skýstólpa (2Mós 13.20-22).

6.20 vanheilögu hégómaræður: Sjá athugagrein við 1.3,4 (villukenningar).