Verið Guði þóknanleg og hvikið ekki frá sannleikanum (1.1-21)

Síðara Pétursbréf hefst á því að ónafngreindum hópi kristinna manna er heilsað. Höfundur hvetur þá til þess að lifa guðrækilega og sýna í trú sinni sjálfsaga, þolgæði, bróðurelsku og kærleika (1.3,5-7). Hann telur sig eiga skammt eftir ólifað og bréfið á að vera hinsta kveðja hans, ætluð til áminningar og uppörvunar, svo að þið ætíð eftir burtför mína gerið minnst þessa (1.14,15).

* Símon Pétur: Pétur var fiskimaður í Galíleu. Hann var meðal fyrstu lærisveina Jesú og síðar einn af postulunum tólf (Matt 4.18-22; 10.1-4). Hann var einn þriggja lærisveina, sem urðu vitni að ummyndun Jesú á fjallinu, þegar rödd úr skýi sagði: „Þessi er minn elskaði sonur“ (Matt 17.1-13).

Jesús spurði lærisveina sína: „Hvern segið þið mig vera?“ Pétur, sem gekk enn undir nafninu Símon, varð þá fyrir svörum: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá sagði Jesús hann sælan, breytti nafni hans í „Pétur“, sem þýðir „klettur“ og sagði við hann: „Á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína…Ég mun fá þér lykla himnaríkis“ (Matt 16.13-20). Á altaristöflum og helgimyndum sést Pétur oft með lykil í hendi. Eftir uppstigningu og himnaför Jesú gerðist hann einn helsti leiðtogi frumkirkjunnar (sjá Pot 2-5; 9.32-12.19; 15.3-21).

Síðara Pétursbréf mun hafa verið ritað allmörgum árum eftir dauða Péturs postula. Höfundar á fyrstu öld kristninnar skrifuðu oft rit sín í nafni þekktra lærimeistara í virðingarskyni við þá og kenningu þeirra.

1.1 Símon Pétur: Sjá ofar.

1.1 þeim sem…dýrmætu trú og mér: Bréfið mun trúlega hafa verið ætlað kristnum mönnum í Litlu-Asíu (sjá 1Pét 1.1).

1.1 Guð vor og frelsari Jesús Kristur: „Frelsari“ er endurlausnari og er orðið haft um Jesú Krist. Hann getur frelsað alla menn frá synd og dauða. „Kristur“ er sama og gríska orðið christos,en það er á hebresku „Messías“, sem þýðir „hinn smurði“ eða „hinn útvaldi.“ Það er messíasar-titill Jesú og má hafa ýmist á undan nafni hans eða á eftir.

1.1 þeim sem Guð vor…í réttlæti sínu…dýrmætu trú: Eða: „heilsar þeim, sem deila með mér hinni sömu dýrmætu trú á réttlæti drottins vors og frelsara, Jesús Krists.“

1.2 margfaldist…með þekkingu: Bréfritari biður þess, að lesendur hans komist til æ meiri þekkingar á Guði. Spámenn og postular hafa miðlað þessari upplýsingu (1.19; 3.1,2), til þess að menn láti ekki blekkjast af villukennendum og falsspámönnum.

1.4 komist undan spillingunni í heiminum…hluttakendur í guðlegu eðli: Í heimspeki Grikkja var því sums staðar haldið fram, að heimurinn væri af hinu illa og gjörspilltur. Slíkra hugmynda gætti t.d. í svonefndum „gnostisisma“. Æðsta takmark mannsins skyldi því vera að hefja sig upp yfir þessa vilpu og samlagast guðlegum anda og krafti. Bréfritarinn grípur hér til hugsunar og talsmáta, sem ekki heyrir til kristinni trú, heldur grískri lífsskoðun. Þó er það gert í þeim tilgangi að koma á framfæri hinum kristna boðskap.

Höfundur Síðara Pétursbréfs heldur því fram, að þeir sem trúa á Jesú geti haldið í skefjum fýsnum holdsins á borð við fjöllyndi, ágirnd, ofdrykkju og skurðgoðadýrkun með því að öðlast hlutdeild í eðli Guðs (2.1-22; 1Pét 4.1-4).

1.5-7 sýna í trú ykkar dyggð…kærleika: Í flestum ritum Nýja testamentis merkir trú að treysta Kristi. Hér er hins vegar átt við það, að trúin á Krist verði auðsæ í hátterni lærisveina hans, og hluttaka þeirra í guðlegu eðli þannig lýðum ljós (1.4). Slík trú mun aðgreina þá skýrt frá falskennendum og þeim fífldjörfu sjálfbirgingum, sem falla munu á eigin illverkum og tortímast (2.10-13).

Síðara Pétursbréf er ritað á tímum, þegar kristindómurinn átti í samkeppni við ýmis önnur vel metin trúarbrögð og lífsskoðanir í rómverska ríkinu. Lesendurnir hafa verið gjörkunnugir upptalningunni í 5. til 7. versi, því að sömu ráðleggingar var að finna í alþýðlegri lífsspeki samtímans. En það er umfram allt trúin á Krist, sem verður til þess að hinum kristna manni fer fram og hann vex í kærleika (1.8,9).

1.8 Drottni vorum Jesú Kristi: Gríska orðið yfir „Drottinn“ er „kyrios“, sem getur þýtt meistari og líka verið notað sem kurteisisávarp, sbr. „herra“. Þegar það er notað um Jesú, undirstrikar það vald hans og mátt. „Kristur“ þýðir „hinn smurði“, Messías (hinn útvaldi). Sjá og „Drottinn (notað um Jesú)“.

1.11 ykkur ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins…Jesú Krists: Kristur tekur við þeim, sem verið hafa honum trúir, í hið eilífa ríki sitt (1Kor 15.12-57; 1Þess 4.13-18; 1Pét 5.10,11).

1.12 sannleikanum: Hér er ræðir um sannleikann um Jesú Krist, sem boðaður hefur verið af spámönnum og postulum.

1.13,14 í þessari tjaldbúðað tjaldbúð minni verði svipt: Bréfritari tekur svo til orða um andlátsstund sína, að tjaldbúð hans verði þá svipt. Að vera „í þessari tjaldbúð“ merkir að vera „í líkamanum“ og kemur sú myndlíking vel heim við hugmyndir Grikkja um það, að líkami mannsins sé jarðnesk tjaldbúð, sem tekin er niður og skilin eftir, þegar maðurinn deyr (sjá og 2Kor 5.1-5). Berið þetta saman við kenningu Páls í 1Kor 15.

1.16 komu Drottins vors Jesú Krists: Sjá athugagrein við 1Pét 1.5 og „Dagur Drottins“ og „Endurkoman“.

1.16-18 sjónarvottur…þessa raust heyrði ég sjálfur: Sjá Matt 17.1-3; Mrk 9.2-7; Lúk 9.28-35.

1.19-21 spámannanna…knúðir af heilögum anda: Engir skilja orð Heilagrar ritningar rétt, nema þeir lærisveinar, sem njóta við lesturinn leiðsagnar heilags anda, alveg á sama hátt og orð spámanna Gamla testamentis voru á sinni tíð innblásin af anda Guðs. Sjá og athugagrein við 1Pét 1.10-12.

1.19 dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp: Morgunljómi nýs dags, sem Kristur færir við endurkomu sína (sjá athugagrein við 1.16). Gríska orðið, sem hér er þýtt með „morgunstjarna“ merkir í raun „ljósberi.“ Jesús er í Nýja testamenti nefndur „hið sanna ljós“ (Jóh 1.9; 3.19-21) og „stjarnan skínandi, morgunstjarnan“ (Opb 22.16). Í 4. Mós 24.17 er spádómur um Messías, þar sem ræðir um „stjörnu, sem rís upp…í Ísrael.“