12.2-4 til þriðja himins…í Paradís: Hér á Páll við sig sjálfan, þótt hann tali um sig í þriðju persónu (12.7). Í þennan tíma greindi menn á um það, hvað himnaríki væri margar hæðir. Þriðji himinn átti að vera bústaður Guðs. Sjá „Paradís„.

12.8 láta hann fara frá mér: Ekki er vitað, hvað það var sem þjáði Pál svo mjög. Ef til vill hefur það verið einhver líkamlegur annmarki ellegar sjúkdómur (Gal 4.13,14), hugarangur, depurð (2Kor 11.28), eða þá ofsóknirnar, sem hann mátti sæta (gal 5.11; 2Kor 11.24-29). Hann beiddi Guð létta af sér þessari kvöl, en Guð varð ekki við því til þess að Páll lærði að treysta krafti hans í stað þess að trúa á eigin mátt sinn og megin. Þar kom að Páll skildi, að náð Guðs og gæska var allt sem hann þarfnaðist. Því gat hann sagt með sanni: „Þegar ég er veikur þá er ég máttugur.“

12.11 Ég hef hagað mér eins og heimskingi: Páll fór hjá sér út af því að hann skyldi gera uppskátt um þær vitranir og opinberanir, sem honum höfðu hlotnast frá Guði. Hann uggði, að menn teldu hann vera að monta sig af þessu.

12.11 hinum stórmiklu postulum: Sjá athugagrein við 11.5.

12.12 postulatákn…undur og kraftaverk: Þegar Jesús kaus sér postulana tólf, gaf hann þeim vald til þess að reka út illa anda, lækna sjúka og reisa jafnvel dauða til lífs (Matt 10.1,8). Páll nefnir líka gáfurnar að vinna kraftavek og lækna sjúka sem sérstakar gjafir heilags anda, gefnar sumum og ekki öðrum (1Kor 12.28,29). Þótt hann væri ekki meðal postulanna tólf, gafst honum af Guði sama hæfni og þeim (Post 13.9-12; 19.11,12; 28.3-6). Sjá og athugagrein við 1.1 (postuli).

12.13 ég sjálfur hef ekki verið ykkur til byrði: Páll áréttar það enn einu sinni við Korintumenn, að hann hafði ekki beðið þá styrkja sig fjárhagslega, ólíkt falspostulunum (1Kor 1.9; 2Kor 11.7-10). En hann hefur áhyggjur af því, að þeim hafi fyrir vikið ekki fundist eins mikið til um kenningu hans.

12.14 í þriðja sinn að ég er ferðbúinn að koma til ykkar:Í fyrstu heimsókn sinni til Korintumanna kom Páll á fót kristnum söfnuði þar (Post 18.1-17). Í annað skiptið fóru hlutirnir nokkur úrskeiðis, eins og lýst er í 2Kor 2.1.

12.18 Títus: Sjá athugagreinar við 7.6 og 8.6. Páll minnir Korintumenn á, að Títus hafi ekki heldur farið fram á neinar peningagreiðslur við þá.

12.20 að mér muni þykja þið öðruvísi en ég óska: Páll kvíðir því, að í þriðju heimsókn sinni til Korintumanna muni verða núningur með honum og þeim, þeir verða ósammála innbyrðis og þykkja bólgna á báða bóga.

12.21 þeirra sem áður hafa syndgað: Það er óhugur í Páli af því að hann óttast, að það muni angra hann mjög að komast að því, að sumir í Korintu hafi ekki enn látið af gömlum syndum eins og t.d. saurlífi (1Kor 5).