Hebreska orðið yfir “Paradís” er tökuorð úr persnesku og merkir fagran og friðsælan trjágarð. Ísraelsmenn fóru að nota þetta orð eftir að þeir sneru heim úr útlegðinni í Babýlon (sjá “Herleiðingin” á bls. 1448). Í Nehemía 2.8 er það haft um skóg konungsins, og í Ljóðaljóðunum 4.13 og Prédikaranum 2.5 um aldingarð. Hjá sumum spámönnum Ísraels varð vart þeirrar hugmyndar að menn Drottins mundu lifna aftur eftir dauðann (Dan 12.2,3; Jes 26.19), og þar kom að nafnið “Paradís” tók að merkja staðinn þangað sem þeir færu að jarðlífinu loknu. Í hugum sumra var “Paradís” ýmist á jörðu eða himni. Aðrir hugsuðu sér hana sem nýjan Edensgarð þar sem lífsins tré (sjá 1Mós 2.9) sprytti að eilífu. Og enn voru þeir sem töldu að Paradís væri þar sem réttlátir og trúir biðu dómsdags.

Nokkuð sama skilnings á Paradís gætir víða í Nýja testamenti. Þannig hét Jesús ræningjanum á krossinum að á þeim degi skyldi hann vera með sér í Paradís (Lúk 23.39-43). Í dæmisögu Jesú af ríka manninum og Lasarusi sama hugmynd á ferð. Þegar hinn fátæki Lasarus deyr, bera englar hann í faðm Abrahams (Lúk 16.19-22).

Í síðara bréfi sínu til Korintumanna, 12. kapítulanum, versunum 1 til 4 skrifar Páll, að hann hafi verið hrifinn upp í Paradís, þar sem Guð birti honum opinberanir. Og hann bar engan kvíðboga fyrir dauðanum, því þegar að andlátsstundinni kæmi færi hann og yrði með Kristi (Fil 1.23). Í Opinberunarbók Jóhannesar er Paradís þar sem grær lífsins tré (2.7; 22.1-5), og þjónar Guðs munu safnast saman þegar öfl hins illa hafa verið gjörsigruð, Drottinn hefur reist hásæti sitt á himni og konungdómur hans drottnar yfir alheimi. Í þessari nýju Paradís mun lýður Guðs fá aðgang að lífsins tré (Opb 22.14).