4.1 prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir: Prestar sáu um helgihaldið í musterinu. Sjá “Prestar í Ísrael”. Rómverjar leyfðu öldungum Gyðinga að hafa varðlið við musterið. Hlutverk þess var að halda uppi lögum og reglu á fjölförnu musterissvæðinu. Foringi varðliðsins var jafnan af prestaættum og nærri æðsta prestinum að virðingu.
Saddúkear voru flokkur auðugra gyðinga og drógu trúlega nafn sitt af Zadok, en svo nefndist fjölskylda heldri klerka (sjá 2Sam 20.25; 1Kon 1.39-45). Þeir héldu því fram að brýnast alls væri að ganga í musterið og færa þar fórnir. Um þetta greindi þá á við farísea, en svo nefndist flokkur Gyðinga er taldi að meiru skipti að hlýða fyrirmælum lögmáls Móse um framferði í daglegu lífi en fara í einu og öllu eftir reglum þess um helgihald og fórnir. Farísear voru líka trúaðir á líf eftir dauðann, en það máttu Saddúkear ekki heyra nefnt.
4.5 höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir: Höfðingjarnir voru líklega hópur auðkýfinga tengdur musterinu og prestunum. Öldungarnir kunna að hafa verið virtir kennarar, mjög vel að sér í lögmáli Móse. Fræðimennirnir rannsökuðu Mósebækurnar fimm, en þær nefnast einu nafni “Tóra.”
4.6 Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander: Annas hafði verið æðsti prestur frá 6 til 15 e. Kr, en Rómverjar settu hann af. Eleasar, sonur hans, var þá skipaður í hans stað. Síðar var Kaífas, tengdasonur Annasar, gerður að æðsta presti og gegndi hann embættinu frá 18 til 36 e. Kr. Jóhannes getur hafa verið Jónatan, sonur Annasar, en hann varð æðsti prestur eftir föður sinn árið 36 e. Kr. Ekki er vitað, hver Alexander var.
4.8 fylltur heilögum anda: Víða í Postulasögunni er því lýst, að lærisveinar Jesú öðlast kraft, hugrekki og sérstakar náðargáfur fyrir tilverknað heilags anda. Sjá nánar um Heilagan anda.
4.25 Davíðs, föður vors: Sjá athugagrein við 2.29-31.
4.27 Heródes og Pontíus Pílatus: Þetta er Heródes Antípas, sonur Heródesar mikla. Hann var landstjóri í Galíleu frá 4 f. Kr til 39 e. Kr. Þótt hann sæti í Sesareu, var hann staddur í Jerúsalem þegar Jesús var tekinn höndum (Lúk 23.7). Sjá og athugagrein við 3.13 (Pílatus).
4.27 Jesú, er þú smurðir: Sjá athugagrein við 3.20.
4.36-37 Jósef…kölluðu Barnabas: Jósef var af ættkvísl Levíta, en karlar af því kyni störfuðu í musterinu. Þegar Kanaanslandi var skipt á milli ættkvísla Ísraels, fékk Leví ættkvísl ekkert afmarkað landsvæði. Jósef þessi átti heima á Kýpur og hefur að líkindum fengið að kaupa sér landspildu þar. Barnabas átti eftir að verða mikill forustumaður í frumkirkjunni. Hann fór með Páli postula í eina af kristniboðsferðum hans (13.1-15.2).