4.1 erfinginn er ófullveðja…þræli: Páll líkir börnum við þræla af því að þau þurfa að hlýða foreldrunum í einu og öllu þangað til þau verða fullveðja (4.2).

4.2 undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum: Páli verður hugsað til rómverskra réttarvenja. Ráðsmaður ábyrgðist barn til 14 ára aldurs. Fjárhaldsmaður gætti eigna ungs manns þangað til hann varð 25 ára. Páll líkir lögmálinu við þessa gæslumenn.

4.3 heimsvættanna: Heimsvættir kallar Páll þann margvíslega átrúnað manna, sem réði hugsunum þeirra og gerðum áður en þeir tóku trú á Jesú Krist.

4.4 sendi Guð son sinn: María, móðir Jesú, var Gyðingur (Matt 1.18-25; Lúk 1.26-56; 2.1-20). Jesús var því líka Gyðingur og hlýddi Móselögum.

4.6 hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu okkar: Hjartað var álitið líffæri og miðstöð hugar mannsins og vilja. Ef andi Krists býr í hjarta manns mun sá öðlast kraft til þess að lifa að Guðs vilja. Sjá „Sonur Guðs„.

4.6 Abba, faðir: Gríska orðið, sem þýtt er á íslensku með „faðir“ er dregið af arameíska orðinu „abba,“ sem samsvarar orðunum „pabbi“ eða „pápi minn“ hjá okkur.

4.8 guða sem eru ekki neinir guðir: Annað hvort á Páll við falsguði eða að öðrum kosti heimsvættirnar, sem um ræðir í 4.3.

4.9 veiku og fátæklegu vætta: Sjá athugagrein við 4.3. Hér gæti Páll líka átt við andaverur tengdar gangi himintungla og talið var að ákvörðuðu farnað manna á jörðinni og afdrif þeirra annars heims. Þessar vættir voru öflugar að því leyti að þær höfðu vald yfir hugsun manna, en „veikar og fátæklegar“ þegar á reyndi og hjálpar var þörf.

4.14,15líkamsásigkomulag…augun hefðuð þið stungið úr ykkur: Páll var ekki heill heilsu þegar hann kom fyrsta sinni til Galatalands. Hér mætti láta sér til hugar koma, að hann hafi þjáðst af einhverjum augnsjúkdómi.

4.17 Þeir: Sjá athugagrein við 1.7.

4.22 Abraham átti tvo sonu: Abraham hafði enga trú á því að þau Sara myndu eignast son. Hann gat því barn við Hagar, ambátt Söru, og var drengnum gefið nafnið Ísmael (1Mós 16.1-16). Abraham og Sara eignuðust síðar drenginn Ísak. Hann var sonurinn, sem Guð hafði gefið fyrirheit um, og af honum er Ísraelsþjóðin komin. Hver, sem erfiðar undir lögmálinu er þræll á sama hátt og Hagar og sonur hennar. En hinn, sem trúir á Jesús Krist, er líkur niðjum Söru, enda var hún móðir drengsins sem fæddist samkvæmt fyrirheiti Guðs.

4.29,30 sá sem fæddur var á náttúrulegan hátt: Páll á við Ísamel (1Mós 21.9,10). Hann hvetur kristna menn í Galatalandi ti þess að hætt að reiða sig á lögmálið, sem enginn arfur fylgir.