15.1,2 fagnaðarerindið sem ég boðaði…Það mun og frelsa ykkur: Sjá athugagreinar við 1.17,18 og 1.20-27. Sjá og 15.3-7 og “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“.

15.5,6 Kefasi, síðan þeim tólf…fimm hundruð bræðrum: Sjá athugagrein við 1.11,12. “Þeir tólf” eru postular Krists (Matt 10.2-4). Um bræðurna fimm hundruð er ekkert vitað og þeir eru ekki nefndir neins staðar annars staðar í Nýja testamenti.

15.7 Jakobi…postulunum: Jakob var bróðir Jesú (Mrk 6.3; Gal 1.19; Post 12.17; 15.13). Sjá athugagrein við 1.1.

15.9 ég ofsótti söfnuð Guðs: Áður en Jesús kjöri Pál til þess að prédika fagnaðarerindið, hafði faríseinn Sál (Páll) ofsótt lærisveinana (Gal 1.13-16; Post 8.3; 9.1,2). “Söfnuður Guðs” er hér allir þeir, sem fylgja Kristi.

15.12 hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? Í söfnuðinum í Korintu var fólk, sem ekki trúði á upprisuna. Sumt af því kann að hafa aðhyllst þá kenningu, að sálin lifði af líkamsdauðann, en jarðneskar leifar manna rotnuðu í gröfinni; það er kenningin um “ódauðleika sálarinnar.” Kenning Páls um eilífa lífið er með öðrum hætti. Sjá “Upprisan“.

15.17 ef Kristur er ekki upprisinn…Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar: Sjá 15.4-7, þar sem Páll tekur í fáum orðum saman fagnaðarerindið um Jesú. Páll kallaði það “leyndardóm Guðs,” að hann skyldi senda Jesú í heiminn til þess að deyja á krossi til syndafyrirgefningar (1Kor 2.1,4). Nú segir hann, að hafi Guði ekki reist Jesú frá dauðum, sé trúin fánýt og fyrirheit Guðs um syndafyrirgefningu ósatt.

15.21 dauðinn kom með manni: Hér á Páll við Adam. Adam og Eva óhlýðnuðust boði Guðs með því að eta ávöxtinn af skilningstré góðs og ills (1Mós 3.20). Fyrir þá synd kom dauðinn í heiminn. En fyrirgefningin sem Jesús færir mun bera sigurorð af synd og dauða.

15.24 Síðan kemur endirinn: Sjá athugagreinar við 1.7; 3.12-13; 4.5.

15.24 Guði föður: Sjá athugagrein við 1.3 (Guði föður vorum).

15.29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Sjá athugagrein við 1.13. Sumir létu skírast fyrir hönd vina og vandamanna sem dáið höfðu óskírðir. Páll segir þetta óþarfa.

15.32 barist við villidýr í Efesus: Páll var staddur í Efesus þegar hann skrifaði Korintumönnum. Ekki er ljóst hvort hann á hér við óargadýr eða fólk, sem var honum andsnúið og gerði lítið úr kenningu hans.

15.32 etum þá og drekkum: Páll vitnar hér í Jesaja 22.13. Ef dauðir rísa ekki upp, segir hann, geta menn lifað og leikið sér áhyggjulausir

15.33 Vondur félagsskapur spillir góðum siðum: Hér vitnar Páll í gríska sjónleikinn “Thais” eftir Menander.

15.34 syndga: Sjá athugagrein við 14.24,25.

15.35 Hvernig rísa dauðir upp? Þessa spurningu hafa hinir kristnu í Korintu trúlega borið upp við Pál í einu af bréfum sínum til hans (sjá athugagrein við 7.1).

15.44 andlegur líkami: Samkvæmt kenningu Páls fá menn nýjan líkama, þegar þeir rísa upp frá dauðum. Þetta fer í bága við þá almennu trú á dögum Páls, að líkaminn muni að vísu rotna í gröfinni, en sálin lifa af líkamsdauðann.

15.45-49 Adam…Jesús: Sjá athugagrein við 15.21. Páll kallar Jesú “hinn síðari Adam” af því að hann sigraði dauðann, sem kom í heiminn vegna brots “hins fyrsta manns”, Adams. Líkamir þeirra, sem á Jesú trúa, eru dauðlegir nú eins og líkami “hins fyrsta manns”, Adams, en þegar þeir rísa upp frá dauðum munu þeir fá andlegan líkama eins og Jesús.

15.50 Guðs ríki: Sjá athugagrein við 4.20.

15.51 Við munum ekki öll deyja en öll munum við umbreytast: Það var kenning Páls, að þegar Jesús kæmi aftur, mundu þau sem þá lifðu umbreytast og verða hrifin burt til fundar við Drottin og vera upp frá því með honum alla tíma í óforgengilegum líkama (1Þess 4.15-17).

15.52 lúðurinn mun gjalla og þá munu dauðir upp rísa: Sjá Matt 24.31; Jóh 5.25; 1Þess 4.16 og Opb 8.2-11.19. Sjá og “Endurkoman“.

15.54 hið forgengilega…verður ódauðlegt: Sjá “Eilíft líf” og “Upprisan“.

15.56 lögmálið afl syndarinnar: Páll á ekki við það að lögmál Móse komi fólki beinlínis til að syndga, heldur fari menn að finna til löngunar til þess að brjóta af sér, þegar lögmálið hefur sagt þeim hvað er bannað. Sjá Róm 7.7-12.