9.1 til borgar sinnar: Um þessar mundir átti Jesús heima í Kapernaúm (sjá 4.13).

9.2 syndir þínar eru fyrirgefnar:Synd er sérhvert brot móti Guðs heilaga vilja. Í lögmáli Móse mælti Drottinn svo fyrir, að friðþægt skyldi fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra með því að færa geithafur í syndafórn á friðþægingardaginn (3Mós 16.1-22). Á tímum Jesú kenndu fræðimennirnir að Guð einn gæti fyrirgefið syndir. Þeir urðu því bæði hneykslaðir og reiðir þegar Jesús sagði manninum, að syndir hans væru fyrirgefnar. Þeim fannst hann vanvirða Guð með þessu.

9.8 óttaslegið: Í sumum handritum „undrandi.“

9.9 mann…hjá tollbúðinni, Matteus að nafni: Sjá athugagrein við 5.46 (tollheimtumaður). Matteus var einn lærisveinanna tólf. Matteusarguðspjall er að vísu kennt við hann, en fræðimenn telja að vart geti verið um einn og sama mann að ræða.

9.10 húsi hans: Eða: húsi Jesú.

9.14 Hví föstum við?Sjá athugagrein við 4.2.

9.17 springa belgirnir:Við gerjun verður berjasafi að víni. Vínið var látið í belgi úr skinni. Loft myndaðist af gerjuninni og belgirnir tútnuðu út. Það sakaði ekki ef þeir voru af nýrri húð. En væri nýtt vín sett á gamla belgi og skinn þeirra orðið þurrt og skorpið, þá rifnuðu þeir þegar vínið fór að gerjast.

9.23 fólkið í uppnámi:Ættmenni látins manns réðu oft syrgjendur að útförinni. Nokkrum klukkustundum áður en hinn dauði var borinn til grafar byrjuðu fjölskylda hans, nágrannar, venslafólk og þessir atvinnu-syrgjendur að veina og stynja. Ósjaldan barði fólkið sér á brjóst og reif klæði sín til þess að tjá sorgina. Þessu fór fram á meðan líkið var borið að gröfinni.

9.27 Sonur Davíðs:Margir af spámönnum Ísraels héldu því fram að Messías yrði af ætt Davíðs konungs. Því var Messías oft kallaður „sonur Davíðs“ (sjá athugagrein við 1.1.)

9.34 höfðingja illra anda:Líka kallaður Beelsebúl eða Beelsebúb (sjá Matt 10.25; 12.24; Mrk 3.22; Lúk 11.15). Fyrra nafnið er dregið af nafni kanverska guðsins Baals, en hið síðara er orðaleikur að hinu fyrra og þýðir „flugnahöfðingi.“ Höfðingi illu andanna var líka nefndur Satan (andstæðingur Guðs) og djöfullinn.