27.1 æðstu prestarnir og öldungarnir:Sjá athugagrein við 26.3.

27.2 framseldu hann Pílatusi landshöfðingja:Rómverjinn Pontíus Pílatus var landshöfðingi í Júdeu frá 26 til 36 e. Kr. Hann sat í Sesareu við sjávarströnd Miðjarðarhafsins. Þegar hann var á ferðinni í Jerúsalem dvaldi hann í Antoníusar-virkinu, þaðan sem sá yfir musterissvæðið úr norðvestri. Sjá kort á bls. 2376. Ráðið kvað upp þann úrskurð, að Jesús skyldi líflátinn, en löglegur dauðadómur varð aðeins felldur af rómversku yfirvöldunum. Sjá og “Pontíus Pílatus” á bls. 1996.

27.3-8 Post 1.18,19. 27.9,10 Sak 11.12,13; Jer 18.2,3; 32.6-15.

27.6 silfrið….ekki má láta það í guðskistuna:Peningarnir, sem Júdasi voru borgaðir fyrir að svíkja Jesú, hafa trúlega verið álitnir óhreinir. Ákvæðið, sem kemst næst þessu í Móselögum, er að finna í 5Mós 23.28 þar sem segir að greiðsla fyrir vændi sé óhrein og megi ekki koma með hana í musterið.

27.10 leirkerasmiðs akurinn:Að líkindum akur í eigu manns, sem bjó til leirker. Líka má vera að hér sé átt við landskika sem leirkerasmiðir sóttu í leirinn eða ef til vill þar sem þeir fleygðu brotnum kerum.

27.16 Barrabas:Í sumum handritum nefndur Jesús Barrabas.

27.24 Pílatus…..þvoði hendur sínar: Þetta gerði Pílatus til þess að sýna að hann teldi sig saklausan af því að hafa dæmt Jesú til dauða. Hann vildi að það yrði lýðum ljóst, að krossfesting Jesú væri á ábyrgð leiðtoga gyðinga, en ekki hans. Þó hefði Jesús aldrei verið tekinn af lífi án samþykkis hans. Sjá og 5Mós 21.6-9.

27.27 höllina:Antoníusar-virkið þar sem rómverski landstjórinn var til húsa þegar hann dvaldist í Jerúsalem. Höfuðaðsetur hans var annars í Sesareu. Í kastalanum höfðust og við rómverskir hermenn.

27.28 skarlatsrauða kápu: Líklega skikkja eða slá rómverskra hermanna.

27.32 mann frá Kýrene er Símon hét:Kýrene var borg í Norður-Afríku. Símon var trúlega kominn til Jerúsalem til þess að dvelja þar á páskum og hátíð ósýrðu brauðanna.

27.33 Golgata, það þýðir hauskúpustaður:Nafnið gæti verið komið til fyrir það að þessi staður fyrir utan borgarmúrinn er nærri kletti sem í laginu er ekki ólíkur höfuðkúpu úr manni.

27.34 vín að drekka, galli blandað:Sumir fræðimenn telja, að vínið hafi verið blandað lyfi til þess að deyfa sársaukann eða jafnvel flýta fyrir dauðanum. Það hafi verið unnið úr beiskri og eitraðri jurt, sem kölluð var gall. Dauði á krossi var hægur og þjáningarfullur. Stundum kvöldust menn dögum saman áður en þeir tóku síðustu andvörpin.

27.46 “Elí….sabaktaní!”Þetta ákall er að finna á 22. Davíðssálmi, 1. versi. Hér er það á arameísku, en það var tungan sem þá var töluð af gyðingum í Palestínu og fleiri þjóðum í Mið-Austurlöndum.

27.47-49 Elía….”Sjáum til hvort Elía kemur:Elí þýðir “Guð minn” en hljómar ekki ólíkt nafninu Elía. Gyðingar væntu þess að Elía spámaður kæmi aftur til þess að greiða Messíasi veg (sjá Mal 4.5,6). Því héldu margir að Jesús væri að kalla á Elía. Sjá athugagrein við 11.14 (Elía).

27.51 fortjald musterisns:Tvö fortjöld voru í musterinu. Annað var fyrir inngangi “hins heilaga” en þangað máttu einungis prestar stíga fæti. Hitt tjaldið skildi að “hið heilaga” og “hið allrahelgasta.” Þangað mátti enginn koma nema æðstipresturinn og það aðeins einu sinni á ári. Það er þetta fortjald sem trúlega er átt við hér.

27.56 María Magdalena:Nafnið gæti bent til þess að hún hafi verið frá Magdala, sem var bær við Galileuvatnið vestanvert. Samkvæmt guðspjöllunum hafði Jesús læknað Maríu (sjá Mark 16.9; Lúk 8.2,3). Hún var lærisveinn Jesú og hefur líklega verið í hópi þeirra nánustu vina, sem fylgdu honum á ferðum hans.

27.57 Jósef frá Arímaþeu:Arímaþea var lítið þorp á hæðóttu landsvæði, sem nefndist Efraím, um 30 km. norðvestur af Jerúsalem. Jósef var maður auðugur og gat því borgað Pílatusi og vörðunum, hafi þess verið þörf.

27.60 gröf…höggva í klett:Meðal gyðinga var ekki óalgengt að ríkir menn legðu sína dauðu til hinstu hvílu í grafhýsum sem höggvin voru í kletta. Grafarmunninn var varla nema metri á hlið. Utan við hann var höggvin rauf í klettagólfið og í henni komið fyrir kringlóttum steini sem velta mátti frá og fyrir.

27.64 hinum fyrri”:Hér er vísast átt við þá trú, að Jesús sé Messías.