10.1 sjötíu og tvo: Að því er segir í 1Mós 10, þar sem afkomendur Nóa eru taldir upp, voru 70 þjóðir á jörðinni. (Hin forna, gríska þýðing Gamla testamentis segir þær hafa verið 72.) Ef til vill valdi Jesús þennan fjölda lærisveina til þess að minna á, að boðskapur hans er öllum ætlaður.

10.4 heilsið engum á leiðinni: Á dögum Jesú fór drjúgur tími í að heilsa kurteislega.

10.11 dust…þurrkum vér af oss: Sjá athugagrein við 9.5.

10.13 Kórasín…Betsaída…Týrus og Sídon: Kórasín, Betsaída og Kapernaúm voru bæir við Galíleuvatn norðanvert, þar sem Gyðingar áttu heima. Týrus og Sídon voru blómlegar hafnarborgir við strönd Miðjarðarhafsins. Íbúarnir voru heiðingjar. Sjá kort á bls. 2375. Þó segir Jesús að þeir muni frekar trúa boðskap hans og kraftaverkum en fólkið í Gyðingaþorpunum.

10.13 iðrast…í sekk og ösku: Hærusekkur var af svörtu klæði (sjá Opb 6.12) sem ofið var úr úlfalda- eða geitahári. Gríska orðið sem hér er þýtt með „ösku“ er haft um rjúkandi sót. Menn klæddust sekkjum og jusu ösku yfir höfuð sér þegar þeir syrgðu sárt eða vildu sýna að þeir iðruðust synda sinna (sjá Est 4.1,3; Job 2.8).

10.14 í dóminum: Dómurinn sem kveðinn verður upp þann dag þegar Drottinn dæmir þjóðir heims. Þeir sem trúa og treysta Kristi munu hólpnir verða, sen hinir fá að reyna reiði Guðs og refsingu (sjá Matt 13.47-50; 25.31-46; Jóh 12.44-50).

10.15 Kapernaúm: Sjá athugagreinar við 10.13 (Kórasín…Betsaída…Týrus og Sídon) og 4.23.

10.15 til heljar: Sjá athugagreinar við 8.31 og 12.5.

10.16 þeim er sendi mig: Jesús á hér við Guð. Sjá og Matt 10.40; Mrk 9.37; Lúk 9.48; Jóh 13.20.

10.17 illir andar: Sjá athugagrein við 4.33-35.

10.18 Satan: Sjá athugagrein við 4.3.

10.20 nöfn yðar eru skráð í himnunum: Hinir trúu hljóta að launum líf í Guðs ríki. Í Heb 12.23 segir að nöfn réttlátra séu skráð á himnum. Þá ræðir um „bók“ lífsins í Slm 69.29; Dan 12,1; Fil 4.3; Opb 3.5.

10.25 Lögvitringur: Sjá athugagrein við 5.17.

10.25 eilíft líf: Á tímum Jesú voru margir Gyðingar farnir að vona og trúa á líf eftir dauðann. Aðrir, og þar á meðal Saddúkear, höfnuðu hugmyndinni um eilíft líf, enda væri ekki um það rætt í lögmáli Móse (sjá greinina „Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál“). Jesús segir, að hver sem á hann trúir, hafi eilíft líf. Sjá nánar „Eilíft líf“.

10.26 í lögmálinu: Sjá athugagrein við 4.16.

10.30 frá Jerúsalem ofan til Jeríkó: Jeríkó er um 250 metra fyrir neðan sjávarmál, rúma 25 kílómetra í norðaustur frá Jerúsalem, sem er um 800 metra yfir sjávarmáli. Leiðin frá Jerúsalem til Jeríkó er því niður í móti. Sjá kort á bls. 2375.

10.31,32 prestur…Levíti: Prestar Gyðinga voru afkomendur Arons, bróður Móse (sjá 4Mós 18.20-32). Prestur var sér fyllilega meðvitaður um það, að hann yrði óhreinn talinn samkvæmt Móselögum, ef hann snerti lík eða blóð. Færi svo, yrði hann að gangast undir hreinsun áður en hann gæti að nýju innt af hendi helga þjónustu í musterinu. Levítar aðstoðuðu prestana við helgihaldið. Levítinn var því líka hræddur um að verða óhreinn. Sjá og athugagrein við 4.27 og „Prestar í Ísrael“.

10.33 Samverji: Maður frá Samaríu. Sjá athugagrein við 9.52.

10.34 olíu og víni: Hvort tveggja þetta var í samtíð Jesú notað eins og lyf núna. Þegar beðið var fyrir sjúkum voru þeir stundum smurðir með olíu (Jak 5.14).

10.38 þorp nokkurt: Betanía. Þar áttu heima systurnar Marta og María og bróðir þeirra, Lasarus (Jóh 11.1) Betanía var um 3 kílómetra í austur frá Jerúsalem.

10.38-40 Marta…systur er María hét: Marta einbeitti sér að því að inna þjónustu af hendi, taka til mat og auðsýna komumanni gestrisni. (Gríska orðið yfir þjónustu er „díakonía“, samstofna orðinu „djákni“. Hér er átt við alla kærleiksþjónustu, sem kristinn maður lætur öðrum í té; bæði er þjónað er til borðs og eins annast um fátæka og sjúka.) María hafði meiri áhuga á að hlusta á það, sem Jesús hafði að segja. Í Jóhannesarguðspjalli skilur Marta ekki það sem Jesús segir um upprisuna frá dauðum (Jóh 11.17-27).