7.2 kona bundin manni sínum að lögum: Hér vísar Páll til hefðbundins skilnings á tryggð maka í hjónabandi, fremur en hann sé að vitna í ákveðna grein í Móselögum.
7.4 hafið gefist….honum: Nú getur fólk „gefist“ Kristi eins og þegar makar eru gefnir saman í hjónaband. Fólk er frjálst að þessu af því að þeir dánir eru með Kristi hafa um leið fengið lausn undan lögmálinu, sem þeir voru áður „gefnir.“
7.6 þjónað með nýju lífi andans: Sjá athugagrein við 1.3-4 (Heilagur andi). Lífið nýja í Guði er innblásið heilögum anda (Gal 5.16-26).
7.7 Er lögmálið synd: Sjá athugagrein við 2.12. Sumir andstæðingar Páls héldu því fram, að hann áliti lögmálið illt og óguðlegt. Páll vill taka af öll tvímæli um það, að þetta sé engan veginn skoðun hans. Hann skýrir svo hvert hlutverk lögmálsins sé: Það sýnir okkur fram á hvað er synd. Lögmálið er því heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.
7.8 Án lögmáls er syndin dauð: Ef ekki væri lögmál Guðs, þá vissi enginn hvað væri synd. Þegar maðurinn heyrir boðorðið, þá rennur upp fyrir honum hvað er yfirtroðsla þess og um leið kemur hann auga á syndina. En þetta þýðir ekki, að lögmálið valdi syndinni. Lögmálið leiðir í ljós illsku syndarinnar. Lögmálið og borðin eru því heilög, réttlát og góð.
7.14 lögmálið er andlegt en ég er jarðneskt hold:Að dómi Páls var lögmálið frá Guði komið og birti gjörvallan vilja Guðs. Aftur á móti var Páll sjálfur aðeins mannlegur og því ófullkominn og breyskur.
7.25 Sjálfur þjóna ég lögmáli Guðs með huga mínum en lögmáli syndarinnar með ytri gjörðum: Hér dregur Páll saman undanfarandi efni. Hann kveðst hafa vitað að lögmál Guðs væri gott og því reyndi hann að hlýða því sem best hann gat. En eigingjarnar hvatir hans urðu til þess að hann reis gegn lögmálinu og aðhafðist hið illa. Enginn er laus við þessar illu hvatir og því getur enginn hlýtt lögmáli Guðs algjörlega, jafnvel þótt hann viti vel um muninn á réttu og röngu. Þess vegna fagnar Páll og gleðst yfir því að Guð skyldi senda Jesú til þess að frelsa hann og alla menn frá þessari vonlausu klípu.