Koma Jesú undirbúin

Lúkas hefur guðspjall sitt með því að skýra frá því hvers vegna hann ritar það. Síðan víkur sögunni að fæðingu Jesú. Fæðing Jóhannesar skírara er og stórviðburður. Í prédikun sinni boðar Jóhannes mönnum, að þeir skuli taka sinnaksiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda. Með því „greiða þeir veg Drottins“, búa sig undir að taka við Jesú. Síðast í þessum hluta guðspjallsins segir frá því er Jesús þiggur skírn af Jóhannesi og er svo freistað af djöflinum í eyðimörkinni.

Heilagur andi: Í bæði Lúkasarguðspjalli og Postulasögunni ræðir oft um heilagan anda, sem er kraftur Guðs að starfi í heiminum. Kraftur Hins hæsta yfirskyggir Maríu í Nasaret og heilagur andi kemur yfir hana. Þess vegna er barnið, sem hún ber undir belti, heilagt, sonur Guðs. Heilagur andi leiðir fólk, stýrir gerðum þess (Lúk 4.1,14; Post 8.29,39), eflir það til stórvirkja og kennir því að prédika um Jesú (Post 2.1-11). Heilagur andi blés postulunum í brjóst hugrekki til þess að prédika, gæddi frumkirkjuna vaxtarmegni og styrkti hana (Post 9.31). Sjá og „Heilagur andi“ í orðtakasafni.

Elía:Elía var spámaður í Ísrael rúmum 8 öldum áður en Jesús fæddist. Nafnið merkir „Drottinn er minn Guð.“ Guð Ísraels hét annars „Yahweh“ (Jave). Sjá „Drottinn (YHWH)“ á bls. 135. Elía var frægur fyrir kraftaverk sín. Hann brýndi alvarlega fyrir fólki að tilbiðja Jave einan. Síðari spámenn væntu þess að Guð sendi þjóðinni Elía til þess að vara hana við dómi Guðs (Mal 3.1-4, 23). Ýmsir töldu að Jóhannes skírari væri Elía endurkominn (sjá Mrk 6.14,15).

1.1 sögu þeirra viðburða, er gerst hafa meðal okkar: Í örfáum inngangsorðum Lúkasar (1.1-4) kemur fram að hann er sér þess meðvitandi að aðrir hafa á undan honum rakið sögu Jesú, ritað um kenningu hans og kraftaverk og sagt frá dauða hans og upprisu. Slík frásögn heitir á grísku „evangelion“, á íslensku „guðspjall“, sem þýðir „gleðilegur boðskapur“, „góðar fréttir“. Sjá nánar „Guðspjöllin og Postulasagan“ í almennri umfjöllun um Nýja testamentið.

1.3 Þeófílus: Nafnir merkir „vinur Guðs.“ Sumir telja, að átt sé við sérhvern þann, sem er vinur og meðhaldsmaður Jesú. Aðrir álíta, að Þeófílus hafi verið rómverskur embættis- eða fyrirmaður, sem kostað hafi ritun Lúkasarguðspjalls og afskriftir þess.

1.5 Heródesar, konungs í Júdeu: Hann gékk líka undir nafninu Heródes mikli. Þegar Rómverjar lögðu undir sig Palestínu varð hann landstjóri. Konungur varð hann árið 37 f. Kr., en dó skömmu eftir að Jesús fæddist (Matt 2.19). Hann var að uppruna frá Ídúmeu og því ekki Gyðingur. Hann reyndi að koma sér í mjúkinn hjá gyðingaþjóðinni með því að endurbyggja musterið í Jerúsalem.

1.5 Sakaría…Elísabet: Þau voru bæði af prestaættum. Davíð konungur skipti afkomendum Arons, fyrsta æðsta prestsins, í 24 flokka presta. Flokkarnir skiptust á að þjóna í musterinu. 8. sveitin var kennd við Abía (1Kron 24.10). Sjá og 1Sam 1.

1.9 samkvæmt venju…fórna: Það var í verkahring prestanna að setja nýtt reykelsi á altarið í musterinu eftir fórnirnar kvölds og morgna. Reykelsi var m.a. unnið úr myrru, nardus, kanil, ilmkvoðu og salti.

1.13 Jóhannes: Jóhannes skírari. Nafnið merkir „Drottinn er góður.“ Sjá „Jóhannes skírari“ í orðtakasafni.

1.15 Aldrei…drekka vín né áfengan drykk: Í Ísrael til forna voru svonefndir „nasíear“ sérstaklega vígðir til ýmiss konar þjónustu við Guð, lengur eða skemur. Þeir máttu ekki neyta áfengis (4Mós 6.1-4). Sumir fræðimenn hafa talið, að Jóhannes hafi verið nasírei.

1.19Gabríel: Gabríel engill er fyrs nefndur á nafn í spádómsbók Daníels. Hann er sendiboði Guðs og veitir Daníel skilning á sýn, sem hann sá (Dan 8.16; 9.21).

1.23 þjónustudagar: Hverjum presti var úthlutaður ákveðinn tími árs til þjónustu í musterinu. Sjá athugagrein við 1.5 (Sakaría).

1.26 borgar í Galíleu, sem heitir Nasaret: Þessi litli bær (nú en-Nasíra) er hvergi nefndur í Gamla testamenti. Árið 63 f. Kr. lögðu Rómerjar Galíleu undir sig og ríktu þar um daga Jesú.

1.27 Jósef…María: Jósef var af ætt Davíðs, sem talinn var mestur konunga í Ísrael. Spámennirnir sögðu að Messías yrði af Davíðs ætt Jes 11.1-3; Matt 1.18).

1.31 Jesús: Nafnið merkir „Drottinn frelsar.“

1.32 Hins hæsta: Þetta nafn Guðs á rætur að rekja allt aftur til daga ættföðurins Abrahams (1Mós 14.17-22).

1.35 Heilagur andi: Sjá í orðtakasafni.

1.35 sonur Guðs: Sjá um hugtakið „Guðs sonur“ í orðtakasafni.

1.39 fjallabyggðum Júda: Júdea hét suðurhluti Palestínu. Þar er víða fjöllótt og því ekki ljóst hvar Sakaría og Elísabet áttu heima.

1.41 heilögum anda: Sjá í orðtakasafni.

1.46-55 Lofsöngur Maríu: Í þessari bæn lofar María Guð með líkum hætti og Hanna forðum, þegar hún ól son sinn (1Sam 2.1-10). Lofsöng Maríu nefna margir kristnir menn Magnificat, sem er latina og þýðir „miklar“ (þ.e. Önd mín miklar…) Í lofsöngnum kemur glöggt fram, að Guð elskar fátæka og smælingja, en sú hugsun er m.a. rauði þráðurinn í guðspjalli Lúkasar.

1.48 1Sam 1.11.

1.55 feðrum vorum, Abraham: Átt er við Ísraelsþjóðina, sem öll á ættir að rekja til Abrahams og Söru. Guð gerði sáttmála (samning) við Abraham mörgum öldum áður en Jesús fæddist (1Mós 12.1-3; 17.4-8). Abraham hét að fylgja Guði og Guð lofaði honum því að gera afkomendur þeirra Söru að mikilli þjóð (1Mós 15.1-6). Sjá og „Abraham“.

1.59 umskera: Lögmál Móse mælti svo fyrir, að átta dögum eftir fæðinguna skyldi skera burt yfirhúðina á getnaðarlim sveinbarna til merkis um sáttmála þjóðarinnar við Drottin (1Mós 17.9-14; 3Mós 12.3). Það heitir umskurn. Sjá og „Umskurn“.

1.67 heilögum anda: Sjá í orðtakasafni.

1.69 Davíðs þjóns síns: Átt er við Davíð konung í Ísrael.

1.69 horn hjálpræðis: Dýrahorn táknuðu oft styrkleika.

1.70 heilögu spámanna: Spámenn Ísraelsþjóðarinnar voru sendiboðar, er mæltu fyrir munn Drottins. Þeir boðuðu komu Messíasar, er frelsa mundi þjóðina, samkvæmt fyrirheiti Guðs (sjá Jes 7.14; 9.6,7; Míka 5.2).

1.73 Abraham föður vorum: Sjá um Abraham í orðtakasafni.

1.68-79 Lofsöngur Sakaría: Sakaría lofaði Drottin og lýsti því af spámannlegri andagift, hverju Jóhannes sonur hans mundi koma verk. Í lofsöng sínum lýsir Sakaría blessun, líkt og gert er í mörgum Davíðssálma, og boðar fagnaðarerindi. Sjá Slm 41.13; 106.48.

1.80 þróttmikill í anda: Sjá athugagrein við 1.35 (heilagur andi). Frá því Jóhannes fæddist og þangað til hann hóf að prédika í eyðimörkinni liðu um 30 ár.

1.80 í óbyggðum: Jóhannes hafðist trúlega við í óbyggðum Júdeu, á milli Jerúasalem og Dauða hafsins.