2.1 Móðir Jesú: Sjá Lúk 1.26-56; 2.1-52. María átti heima í Nasaret, um 14 km. sunnan við Kana.

2.4 Minn tími er ekki enn kominn: Jesús á við dauða sinn og upprisu, en þá yrði dýrð hans sem Guðs sonar opinber.

2.6 vatnsker…samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun: Í lögmáli Móse varð öll fæða, sem menn snertu, lýst vanhelg eftir vissri skilgreiningu, ef þeir höfðu áður en þeir settust að snæðingi komið við eitthvað óhreint. Sjá og “”Hreinsanir (hreint og óhreint)” á bls. 2031.

2.10 bera fyrst fram góða vínið: Í veislum voru eðalvín borin fyrst fram, á meðan gestirnir voru enn dómbærir um gæðin. Þegar leið á fagnaðinn og menn gerðust hreifir, skiptu kostir veiganna minna máli.

2.11 fyrsta tákn sitt gerði Jesús: Í Jóhannesaguðspjalli er gríska orðið “semeia” (“tákn”) haft um “kraftaverk.” Guðs sonur gerir tákn, þ.e. vinnur kraftaverk.

2.11 Kana í Galíleu: Sjá athugagrein við 2.1.

2.12 Kapernaúm: Þar var bækistöð rómverskra hermanna sem höfðu umsjón með innheimtu skatta. Þegar Jesús var orðinn fulltíða fluttist hann frá Nasaret til Kapernaúm.

Jesús í Júdeu og Samaríu

Nú víkur sögunni suður í Júdeu og Samaríu, en svo heita héruðin um miðbik Palestínu. Jesús rekur víxlarana út úr musterinu í Jerúsalem og ræðir við Nikódemus og samversku konuna.

2.13 páskar: Sjá “Páskar og hátíð ósýrðu brauðanna”.

2.14 þá er seldu…víxlarana: Í musterinu öfluðu prestarnir mikils fjár í hinum svonefnda “forgarði heiðingjanna” með því að selja þar skepnur sem fórnað var samkvæmt fyrirmælum lögmáls Móse. Sjá “Víxlararnir í musterinu”.

2.18 Ráðamenn Gyðinga: Sjá athugagrein við 1.19-20.

2.19 ég skal reisa það á þrem dögum: Jesús var að tala um musteri líkama síns (2.21).

2.22 ritningunni: Helgirit Gyðinga, sem kristnir menn kalla Gamla testamenti.

2.23 Jerúsalem: Höfuðborg Júdeu í Suður-Palestínu.