2.1 Fjórtán árum síðar: Þessi ferð er trúlega hina sama og lýst er í Post 15.1-21.

2.1 Barnabasi…Títus: Barnabas var af ætt Leví (einum 12 ættbálka Gyðinga). Hann var frá Kýpur. Sjá og Post 9.27 og Post 13.1-14.28. Títus var kristinn maður, en hafði áður verið heiðingi. Hann var samstarfsmaður Páls í Korintu (2Kor 8.3-6) og Efesus (Post 19.1-20.1).

2.3 láta umskerast: Sjá „Umskurn„.

2.4 njósna um frelsi okkar…hneppa okkur í þrældóm: Páll taldi að „njósnarar“ væru að reyna að fá menn til þess að fallast á ranghugmyndir sínar, alveg eins og þess var vænst af þrælum að þeir hlýddu húsbændum sínum. Sjá 5.1.

2.9 Jakob, Kefas og Jóhannes: Jakob var bróðir Jesú (1.19). Um Kefas (Pétur) sjá athugagrein við 1.18. Jóhannes er trúlega Jóhannes postuli (Matt 4.21).

2.11 Antíokkíu: Antíokkía á Sýrlandi var þriðja stærsta borg rómverska heimsveldisins. Páll hóf allar kristniboðsferðir sínar í Antíokkíu (Post 13.1-4; 15.34-39; 18.22,23).

2.12 setið að borði með heiðingjum…dró hann sig í hlé: Í lögmáli Móse var bannað að leggja sér ákveðnar fæðutegundir til munns, ennfremur að sitja til borðs með heiðingjum og einnig Gyðingum, sem höfðu ekki í heiðri reglurnar um hreint og óhreint. Sjá „Hreinsanir (hreint og óhreint)„. Pétur hafði áður samþykkt að þessar reglur ættu ekki að gilda um heiðin-kristna menn (Post 11.1-18) en virðist hafa látið undan þrýstingi frá meðhaldsmönnum Jakobs postula.

2.15 Við erum…ekki heiðnir syndarar að uppruna: Páll kallar heiðingja syndara af því að þeir hafa ekki lögmál Móse (Róm 2.14; 1Kor 9.21).

2.16 maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum: Þessi orð eru sjálfur kjarninn í kenningu Páls, fagnaðarerindinu um Krist. Lögmálið er lögmál Móse.

2.19 lögmálið leiddi mig til dauða: Lögmál Móse sannfærir menn um að þeir séu syndarar, ófærir um að þóknast Guði (2.17; sjá og Róm 3.20). Þegar þetta rennur upp fyrir mönnum verða þeir frjálsir að því að trúa og treysta á Jesú. Fyrir trúna á Jesú öðlast maðurinn nýtt líf, sem lögmálið getur ekki veitt (Fil 3.8-9).

2.19,20 Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar: Þótt krossinn sé dauðatákn í augum heimsins, er hann Páli merki um nýtt líf. Dauði Krists leysir menn undan „bölvun lögmálsins“ (3.13). Páll á ekki við, að hann hafi verið krossfestur í bókstaflegri merkingu þeirra orða, heldur að hans fyrra líf á valdi lögmálsins hafi orðið nýtt vegna trúarinnar á Krist.