15.1 Júdeu: Héraðið í kringum Jerúsalem. Margir postulanna og fleiri leiðtogar safnaðarins áttu enn heima þar.

15.1 látið ekki umskerast…getið þið ekki frelsast: Sjá athugagrein við 7.8 og “Umskurn“. Páll og Barnabas héldu því statt og stöðugt fram, að þetta ytra “tákn” væri ekkert skilyrði þess að heyra til hinum nýja Guðs lýð.

15.3 Fönikíu og Samaríu: Sjá athugagreinar við 11.19,20 (Fönikía) og 1.8 (Samaría).

15.5 farísea: Farísear héldu lögmál Móse út í æsar. Þessir farísear vildu gerast lærisveinar Jesú, en voru jafnframt á því, að öllum bæri að hlýða ákvæðum lögmálsins og gyðinglegum hefðum, m.a. með því að láta umskerast.

15.5 Þá ber að umskera: Þessari skoðun mætti Páll postuli oft og víða (sjá Gal 2.3,11-21; 5.1-18).

15.8 Guð, sem hjörtun þekkir: Sjá athugagrein við 8.21.

15.11 hólpnir fyrir náð: Sjá athugagrein við 2.47. Hér færir Pétur fram sömu rök og Páll gerir víða í bréfum sínum, þ.e. að allir menn, – heiðingjar jafnt sem Gyðingar – réttlætist af trú, en ekki verkum; menn verði hólpnir fyrir náð Drottins, en ekki með því að fylgja reglum eða helgisiðum. Sjá og Gal 3.26-28; Róm 3.21-31.

15.13 Jakob: Bróðir Jesú og einn af leiðtogum safnaðarins í Jerúsalem. Sjá athugagrein við 12.17.

15.20 haldi sig frá öllu sem flekkað er af skurðgoðum…frá saurlifnaði: Sumir safnaðarmenn álitu að ekki væri rétt að neyta kjöts, sem fórnað hafði verið skurðgoðum (sjá 2Mós 34.15-17). Þeir töldu, að með því að leggja sér þetta kjöt til munns, lýstu menn velþóknun sinni á skurðgoðinu, sem kjötið var fært að fórnargjöf. Leiðtogar safnaðarins komu sér saman um að banna fólki að eta þetta kjöt. Sjá og 1Kor 8.1-13.

Í Móselögum var kveðið svo á, að ekki mætti eta kjöt af köfnuðum skepnum, því að þeim hafði ekki verið slátrað með því að skera þær á háls, svo að blóðið rynni úr skrokknum. Blátt bann lá við því að neyta blóðs (3Mós 3.17; 7.26; 17.10-16; 5Mós 12.5-19, 23-24). Með “saurlifnaði” er trúlega átt við sifjaspell (blóðskömm), þ.e. samfarir milli ættingja í beinan legg eða milli systkina. Allt slíkt og fleira þvíumlíkt er bannað í 3Mós 18.6-23 (sjá og Matt 5.32).

15.21 hafa menn prédikað Móse: Sjá athugagrein við 13.38.

15.21 hvíldardag: Sjá athugagrein við 13.14.

15.22 Antíokkíu: Antíokkía í Sýrlandi. Sjá athugagrein við 6.5.

15.22 Júdas…Barsabbas…Sílas: Sílas var sagður gæddur spádómsgáfu (15.32). Sjá og athugagrein við 11.28 (Agabus). Hann var rómverskur borgari eins og Páll (16.37). Þetta er trúlega sami maður og nefndur er Silvanus í bréfum Páls (2Kor 1.19; 1Þess 1.1). Hann slóst í för með Páli á síðari kristniboðsferðum hans (15.37-39).

Júdas Barsabbas kann að hafa verið bróðir Jósefs þess, sem minnst er á í Post 1.23. Nafnið Barsabbas var nokkuð algengt meðal Gyðinga. Það þýðir “sonur sabbatsins” eða ef til vill “sonur frelsunarinnar” eða jafnvel “sonur þess sem snýst til annarrar trúar.”

15.23 í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu…áður voru heiðnir: Bréfið var sent þeim íbúum þessara héraða, sem ekki voru Gyðingar. Sjá athugagrein við 6.5 (Antíokkía í Sýrlandi) og 6.9 (Kilikía).

15.28 heilags anda: Sjá um Heilagan anda.

15.32 spámenn: Sjá athugagrein við 11.28.

Fagnaðarerindið berst Litlu-Asíu, Grikklandi og Rómaborg

Síðari hluti Postulasögunnar hermir frá því er Páll postuli boðaði trúna. Sagt er frá tveimur síðari kristniboðsferðum hans. Hann kemur til mikilla landa og borga við Miðjarðarhafið norðanvert. Þegar hann snýr aftur til Jerúsalem kemst fólkið í uppnám við prédikun hans og leggur á hann hendur. Þegar rómverskur hersveitarforingi handtekur hann, krefst Páll þess sem rómverskur borgari að koma fyrir rétt áður en sér sé refsað. Hann er loks sendur til Rómar, enda hafði hann þá skotið máli sínu til keisarans.

15.36 í hverri borg: Hér á Páll við borgir þær, sem nefndar eru í Post 13.1-14.28.

15.37 Jóhannes: Sjá athugagreinar við 12.12 og 13.13 (Jóhannes skildi við þá).

15.39 Kýpur: Sjá athugagrein við 11.19,20.

15.41 Sýrland og Kilikíu: Sýrland og Kilikíu: Sýrland var rómverskt skattland fyrir norðan Palestínu, við norðaustur-strönd Miðjarðarhafsins. Þar voru mestar í þennan tíma borgirnar Antíokkía og Damaskus. Sjá athugagreinar við 6.5 (Antíokkía); 9.2 (Damaskus); og 6.9 (Kýrene…Asíu).