Sækist eftir visku Guðs og æfið ykkur í þolinmæði  

Upphaf Jakobsbréfsins er að öllu samkvæmt grískri hefð. Var jafnan byrjað með heilsun, síðan nefndir viðtakendurnir, og loks endað á kveðju og árnaðarorðum. Bréfritarinn hvetur lesendur sína til þess að leita visku Guðs og vera staðfastir vinir Krists og þjónar allt til enda, og það jafnt fyrir því þótt þeir verði fyrir freistingum og reyni á þolgæði þeirra og trú.

1.1 Jakob: Lengi var talið, að Jakob, bróðir Jesú og forstöðumaður safnaðarins í Jerúsalem, væri höfundur Jakobsbréfsins (Mrk 6.3; Post 15.13; Gal 1.19).

1.1 Drottins Jesú Krists: Drottinn er á grísku “kyrios” og felst í því orði bæði vald og myndugleiki. Í ávarpi samsvarar það “meistari” eða “herra”. “Kristur” er christosá grísku, á hebresku “Messías” sem þýðirhinn smurði. Sjá “Drottinn”.

1.1 tólf kynkvíslum í dreifingunni: Hinar tólf ættkvíslir Ísraels heita eftir jafnmörgum sonum Jakobs, sonarsyni Abrahams ættföður (1Mós 25.19-49.28) Þegar heimsveldið Babýlon hertók Jerúsalem árið 597 f. Kr. voru hópar Júdamanna herleiddir til Babel og dreifðust sumir þeirra til framandi landa (“dreifingin.”). Höfundur Jakobsbréfs kallar Krists vini í rómverska heimsveldinu “þær tólf kynkvíslir í dreifingunni” og líkir þeim þannig við ættkvíslir Ísraelsmanna forðum. Jafnframt er þá minnt á, að kristindómurinn byggir á gyðinglegum arfi.

1.3 trúfesti: Í guðspjöllunum og bréfum Páls postula þýðir trú og trúfesti trú á Guð og fyrirheiti hans. Sú er og merkingin í 1.3, 1.6 og 2.1. Annars staðar í Jakobsbréfi er trúin öllu fremur rétttrúnaður og trú sem birtist í verkum.

1.5 visku: Jakobsbréfinu svipar um margt til spekirita Gyðinga; í því er fjöldi skínandi hollráða um það hversu kristinn maður skuli lifa lífi sínu. Sumt líkist því sem sagt er í Orðskviðunum 2.6,7, þar sem Ísraelsþjóðin var minnt á, að “Drottinn veitir speki” og “geymir hinum ráðvöndu gæfuna.” En speki Guðs byggir á lögmálinu sem Guð fól Móse að leggja fyrir þjóðina á Sínaífjalli (2Mós 19-34). Gyðingar höfðu spekina því í miklum metum og foreldrar brýndu hana alvarlega fyrir börnum sínum (5Mós 6.1-9). Sjá og “Spekin“.

1.10 auðmaðurinn: Fátækur maður kristinn er betur settur en ríkur trúbróðir hans, því að án fjár og valda verður hann að læra að treysta Guði einum. Auðmaðurinn kann að falla í þá freistni að reiða sig á eigur sínar, en snúa baki við Guði.

1.12 kórónu lífsins: Höfuðdjásn, sem hlotnaðist sigurvegurum á íþróttakappleikjum í Grikklandi til forna. Það var fléttað úr nýafskornum blómum eða laufblöðum. Sjá og 2Tím 4.8 og 1Pét 5.4.

1.12 kórónu lífsins: Dýrðarlíf

1.15 girndin…elur…synd: Eigingjarnar hvatir koma mönnum til þess að “þjóna lögmáli syndarinnar” (Róm 7.25), en “laun syndarinnar er dauði” (Róm 6.23). Sjá og “Synd”.

1.17 föður: Jesús kallaði Guð föður (sjá t.d. Jóh 14). Páll notar þetta sama heiti í mörgum bréfa sinna (1Kor 1.3; Gal 1.2,3; Fil 1.2; Róm 1.7).

1.17 ljósanna: Sólin, tunglið og stjörnurnar, sem Guð hefur skapað (1Mós1.14-19 og Slm 136.7-9).

Sýnið trú ykkar í verki

Höfundur hvetur Guðs vini til þess að leggja af alla vonsku og hlýða í staðinn hinu fullkomna lögmáli Guðs, meðal annars með því að hjálpa bágstöddum, munaðarleysingjum og ekkjum. Kristnir eiga ekki að gera sér dátt við hina ríku, heldur elska alla menn eins og sjálfa sig, ekki síst þá fátæku. Með því sýna þeir, að trú þeirra er lifandi og ekki dauð

1.18 frumgróði sköpunar hans: Svo á grískunni. Mætti og þýða með “eftirlætis fólk hans” eða álíka. Í lögmáli Móse var kveðið svo á, að menn skyldu færa Drottni frumburði búfjárins og frumgróða kornuppskerunnar (2Mós 13.1,2,11-15; 22.29,30).

1.21 hinu gróðursetta orði: Hér kann að vera átt við “hið fullkomna lögmál frelsisins” (1.25), og/eða sjálft fagnaðarerindið um Jesú, sem er “kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir” (Róm 1.16). “Orð” er þýðing á gríska orðinu logos. Það merkir “orð”, “hugtak”, “skynsemi”. Víða í Nýja testamenti erlogossama og Guðs orð, þ.e. innihald hins kristna boðskapar (Lúk 8.12; Mrk 2.2). Í Jóhannesarritunum er logos Kristur (sbr. Jóh 1.1-14; 1Jóh 1.1; Opb 19.13). Sjá og “Stóumenn” og “Trúarbrögð og heimspeki á tímum Biblíunnar“.

1.25 hið fullkomna lögmál frelsisins: Vera má, að hér búi höfundi í hug boðorðið “þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig” (2.8). En eins getur verið að hann eigi við vilja Guðs eins og hann birtist í helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) og lífi og kenningum Jesú Krists.