Hvatning og heilræði

Páll skrifar Filippímönnum, að hann hyggist senda þeim tvo trúa samverkamenn, þá Tímóteus og Epafrodítus, til halds og trausts. Hann varar við þeim, sem halda því fram að hinir nýju í trúnni þurfi að láta umskerast að hætti Gyðinga og fylgja í öllu lögmáli Móse. Hann tekur dæmi af eigin ævi til þess að sýna fram á, að dýrmætast af öllu sé að þekkja Krist Jesú, trúa á hann og fylgja honum. Loks hvetur hann lesendur sína til þess að lifa eins og sæmir Guðs börnum.

2.25 Epafrodítus: Þessi lærisveinn Krists hafði verið sendur Páli með gjöf til hans frá hinum kristnu í Filippí (4.18). Svo virðist, sem hann hafi orðið eftir hjá postulanum og gerst samverkamaður hans. Sú tilhugsun hryggði Epafrodítus, að Filippímenn hefðu áhyggjur af lasleika hans nýverið. Páli var því mikið í mun að senda hann aftur heim til Filippí (2.28) á vit góðra vina.

3.2 Varist hundana: Hér er átt við þá sem vilja láta hina nýju í trúnni hlýðnast lögmáli Móse, einkum þeim ákvæðum þess, er mæla svo fyrir að alla karlmenn og piltbörn skuli umskera. Sjá athugagreinar við 3.3 (umskurnina) og 3.18.

3.3 umskurnina: Lögmál Móse mælti svo fyrir, að allt karlkyn Gyðinga, sem vildi heyra til hinum útvalda Ísraels lýð, skyldi umskera á áttunda degi frá fæðingu, eða eftir atvikum síðar (1Mós 34.21-23; 3Mós 12.3). Sjá og “Umskurn“.

3.3 dýrkum Guð í anda: Sjá athugagrein við 1.19 (andi Jesú Krists).

3.5 ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum: Páll minnir Filippímenn á, að hann sé að ætt og uppruna Gyðingur, af ísraelsku bergi brotinn. Ísraelsþjóðin samanstóð af 12 ættkvíslum, sem komnar voru af sonum ættföðurins Jakobs og hétu eftir þeim (1Mós 49.1-28). Páll var af ættkvísl Benjamíns, yngsta sonar Jakobs (Róm 11.1).

3.5 í lögmálshlýðni farísei: Orðið “farísei” þýðir “hinir einangruðu,” þ.e. þeir, sem halda hópinn og umgangast ekki annað fólk umfram nauðsyn. Farísearnir voru flokkur Gyðinga, sem leituðust við að hlýða lögmáli Móse út í æsar og var uppsigað við þá, sem aðhylltust aðra stefnu.

Fyrstu fimm bækur Biblíunnar, Fimmbókaritið, þ.e. Genesis, Exodus, Leviticus, Numeri og Deuteronomium, hafa inni að halda lögmál Móse.

3.9 trúin á Krist: Páll, lærisveinn Krists og postuli, kenndi að menn réttlættust fyrir trú á Krist, en ekki fyrir hlýðni við lögmál Móse. Sjá Gal 3.1-29.

3.11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum:Páll vonar á upprisu frá dauða til lífs. Sjá “Upprisan” og “Eilíft líf“.

3.12 geta höndlað það: Páll á við lífið í Guði, “verðlaunin á himnum” (3.14).

3.18 óvinir kross Krists: Ef til vill hinir sömu, og Páll varar Filippímenn við í 3.2. Ekki var nóg með að þeir stærðu sig af því að vera umskornir, heldur átu þeir einungis ákveðnar fæðutegundir eða föstuðu til þess að sýna fram á elsku sína til Guðs.

3.20 föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans: Í rómverska heimsveldinu hlotnaðist aðeins fáum útvöldum borgararéttur. Páll bendir á, að langtum dýrmætara sé að eiga föðurland sitt á himnum, í ríki Guðs. Um endurkomu Krists sjá nánar athugagrein við 1.6.