Þegar menn í Ísrael til forna dóu og voru grafnir, var því trúað að sálir þeirra færu niður í myrka undirheima, sem nefndust “Sheol” eða “Hades.” Þar var langsöm og daufleg vist. Seinna, þegar Júdamenn voru í útlegðinni í Babýlon um það bil 600 árum áður en Jesús fæddist, tók að gera vart við sig hjá sumum spámannanna sú hugmynd, að eftir dauðann vöknuðu menn aftur til lífs. Þetta varð til þess, að Gyðingar fóru að horfa öðrum augum og vonbetri til framtíðar (Jes 26.19; Es 37). Daníel spámaður staðhæfði, að lýður Guðs yrði reistur upp frá dauðum. Illskukindum yrði að vísu refsað, en hlýðin guðsbörn mundu rísa upp til eilífs lífs (Dan 12.2,3).

Aðrar þjóðir fornaldar höfðu svipaðar hugmyndir um afdrif manna og farnað eftir dauðann, og þó ekki að öllu leyti eins. Margir Grikkir, svo dæmi sé tekið, trúðu því að sálin væri ódauðleg og lifði þarafleiðandi af líkamsdauðann. Upprisan, eins og henni er víða lýst í Nýja testamenti, er að því leyti frábrugðin þessari hugmynd, að þar er manneskjan öll, líkami og sál, reist upp til lífs að nýju.

Lærisveinarnir, sem sáu Jesú upprisinn, trúðu því að dauði hans hefði verið velþóknanleg fórn fyrir Guði, færð vegna synda mannanna. Guðspjallamaðurinn Markús hermir frá því, að eftir krossdauða Jesú og greftrun hafi lærisveinunum verið sagt að þeir myndu sjá hann (Mrk 16.7), en í hinum guðspjöllunum er gengið lengra; þar er frá því greint vafningalaust, að lærisveinarnir hafi með eigin augum séð Jesú upprisinn (Matt 28; Lúk 24; Jóh 20.21). Páll postuli segir, að hinn upprisni Kristur hafi birst sér, eins og raunar Pétri áður og mörgum öðrum að auki (1Kor 15.3-8). Fyrir óhlýðni Adams voru allir ofurseldir dauðanum, uns Kristur kom. En þaðan í frá má lýður Guðs reiða sig á líf handan við gröf og dauða, af því að Kristur var Guði hlýðinn og það jafnt fyrir því þótt það leiddi hann til dauða á krossi (Fil 2.8). Kristur var reistur upp frá dauðum (Fil 2.10) og varð frumburðurinn í nýrri fjölskyldu Guðs (1Kor 15.20-14), sem öll mun rísa upp frá dauðum.

Þótt Jesús segði lærisveinum sínum að hann yrði af Guði reistur upp frá dauðum, trúðu þeir því ekki fyrr en þeir fengu sjálfir að sjá hann upprisinn. Þeim var gefið fyrirheit um það, að þeir myndu og lifa (Jóh 14.19,20), verða endurlífgaðir með Kristi (Ef 2.5,6). Kirkjan, nýr söfnuður Guðs (Kól 1.18), má treysta því að syndin og dauðinn verði að velli lögð, Guð hafi meira að segja þegar látið hana umbreytast til dýrðar og gefið henni lífið nýja (2Kor 3.18; Fil 3.21). Sögulokin góðu verða, þegar Kristur kemur aftur og ber sigurorð af dauðanum og öllum illum öflum (1Kor 15.23,14; 1Þess 4.14). Vinir Krists munu ríkja með honum yfir nýjum himni og nýrri jörð (Opb 20.4).