16.1 Derbe og Lýstru: Sjá athugagrein við 14.6-7.

16.1 Tímóteus: Einn nánustu samverkamanna Páls og oft nefndur á nafn í bréfum hans (1Kor 4.17; 2Kor 1.1; 1Þess 1.1; Fílm 1). Sjá og innganginn að Fyrra Tímóteusarbréfi.

16.2í Lýstru og Íkóníum: Sjá athugagreinar við 14.6-7 og 14.1 (Íkóníum).

16.3 umskar hann…faðir hans var grískur: Sveinbörn Grikkja voru ekki umskorin (sjá athugagrein við 7.8). Þótt móðir Tímóteusar væri Gyðingur, hafði hann samt ekki verið umskorinn í bernsku. Páll lét umskera Tímóteus til þess að gyðing-kristnir menn snerust síður gegn honum, og þetta gerði Páll þrátt fyrir það að hann áliti að umskurn væri ekki nauðsynleg til þess að menn nytu velþóknunar Guðs. Sjá t.d. Gal 2.1-5; 5.11.

16.6 Frýgíu og Galataland…Asíu: Frýgía var hérað í Litlu-Asíu og tilheyrðu því hlutar af rómversku skattlöndunum Asíu og Galatalandi. Galataland náði frá austanverðri Frýgíu og inn í miðja Litlu-Asíu. Páll ritaði “söfnuðunum í Galatalandi” svonefnt Galatabréf sitt (Gal 1.2), án þess þó að tiltaka nákvæmlega, hverjir þeir söfnuðir voru. Sjá og innganginn að Galatabréfinu. Asía var rómverskt skattland fyrir vestan Frýgíu við strönd Eyjahafsins. Pergamos (nú Bergama í Izmir-héraði í Tyrklandi) og Efesus voru þar helstu borgir. Rústir Efesusborgar eru nærri Seljuq-þorpi í Izmir-héraði.

16.6 heilagur andi: Sjá um Heilagan anda.

16.7,8 Mýsíu…Biþýníu…Tróas: Mýsía var lítið, rómverskt skattland rétt fyrir norðan Asíu. Tróas var mikil hafnarborg á vesturströnd Mýsíu, á milli Makedóníu í Norður-Grikklandi og Litlu-Asíu. Þangað átti Páll eftir að koma aftur síðar (20.5-12). Biþýnía var rómversk skattland norðaustan við Mýsíu.

16.8 fóru þá um: Eða “fóru fram hjá.”

16.9 Makedóníu: Rómverskt skattland í Norður-Grikklandi við strönd Eyjahafsins og náði allt til Balknafjalla í norðri. Rómverjar lögðu fræga þjóðbraut (Egnatíu-veginn) á milli Adríahafsins í vestri og Eyjahafsins í austri og lá hún um helstu borgir Makedóníu.

16.10 leituðum við færis: Hér notar höfundur Postulasögunnar fornafnið “við” í fyrsta skipti (Vér-kaflarnir). Það bendir til þess að hann hafi sjálfur verið viðstaddur þá atburði, sem hann skýrir frá. En líka má vera, að hann styðjist við frásögn ferðafélaga Páls, sem varð sjónarvottur að atburðunum.

16.11,12 Samóþrake…Neapólis…Filippí: Filippí var nefnd í höfuðið á Filippusi II, föður Alexanders mikla. Hann víggirti borgina og gerði hana að höfuðstað vaxandi konungsríkis síns á 4. öld f. Kr. Á dögum Páls postula var borgin rómversk nýlenda og þar bjuggu margir rómverskir uppgjafahermenn. Sjá og innganginn að Filippibréfinu.

16.13 Hvíldardaginn…bænastað: Sjá athugagreinar við 13.14 (á hvíldardegi) og 9.20 (í samkunduhúsunum).

16.14 úr Þýatíruborg…Lýdía: Lýdía var kaupkona frá Þýatíruborg í rómverska skattlandinu Asíu. Þýatíruborg var þekkt fyrir purpurarautt litarefni, sem þar var búið til úr sæsniglum. Ugglaust hefur Lýdía tekið þátt í guðsdýrkun Gyðinga, þótt ekki væri hún Gyðingur sjálf. Söfnuðurinn í Filippí kom fyrst saman til fundar heima hjá henni (16.40).

16.16 ambátt nokkur…hafði spásagnaranda: Dreki einn ógurlegur, Pyþon að nafni, gætti véfréttarinnar í Delfi og því var spásagnarandi stundum kallaður “pyþonskur andi.” Á grískunni er ambátt þessi einmitt sögð hafa “pyþonskan anda.”

16.21 siði…sem rómverskum mönnum leyfist hvorki að taka upp né fylgja: Hér hafa þeir Páll og Sílas trúlega verið sakaðir um að reyna að ávinna “proselýta”, þ.e.fá menn til þess að skipta um trú, í þessu falli skírast til kristinnar trúar.

16.27 dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér: Ef fangar sluppu úr gæslu fyrir vangá fangavarðar, skyldi hann engu fyrr týna en lífinu (12.19).

16.30 hvað á ég að gera til að verða hólpinn: Sjá athugagrein við 2.47 og “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)“.

16.33 skírður: Sjá athugagrein við 1.5 (skírði með vatni).

16.37 rómverska menn: Þeir voru tiltölulega fáir í heimsveldinu, sem höfðu rómverskan borgararétt, en honum fylgdu ýmis fríðindi. Sjá nánar “Mannlíf og landshættir á tímum Jesú: Þjóðir, valdhafar og stjórnmál“.

16.40Lýdíu: Sjá athugagrein við 16.14.