2.8 af kyni Davíðs: Víða í Nýja testamenti er þess getið, að Jesús hafi verið „af ætt og kyni Davíðs“, frægasta konungsins í Ísrael (Matt 1.1-17; Lúk 2.1-4; Róm 1.1-4).

2.9 í fjötrum: Sjá athugagrein við 1.8 (Fyrirverð þig því ekki)

2.9 orð Guðs: Sjá athugagrein við 1.8 (fagnaðarerindisins).

2.10 hjálpræðið: Í gríska frumtextanum segir: „hjálpræði með eilífri dýrð.“ Orðin eru sömu merkingar og „eilíft líf.“ Páll skilgreinir eilíft líf þannig, að það sé fólgið í því að rísa upp til nýs lífs með Kristi (Róm 6.4-8; 1Kor 15.20-55). Sjá „Eilíft líf„.

2.16-18 vanheilagt hégómatal…segja upprisuna þegar um garð gengna: Kenningu þeirra Fíletusar og Hýmeneusar þess efnis, að hinir dauðu hefðu þegar verið reistir upp, kallar Páll fáfengilegt hégómahjal. Þeir kunna og að hafa haldið því fram, að lífið nýja í Kristi væri einungis andlegs en ekki líkamlegs eðlis. Það kom ekki heim við kenningu Páls um það hvernig dauðir rísa upp (1Þess 4.13-18) né heldur er það í samræmi við það sem hann kenndi um hinn andlega, óforgengilega líkama, er þeim hlotnast sem erfa Guðs ríki (1Kor 15.35-55).

Hýmeneusar er og getið í 1Tím 1.20, og segist Páll þar hafa „selt hann Satan á vald“, og merkir það væntanlega að Hýmeneus hafi verið rekinn úr söfnuðinum.

2.21 húsbóndanum: Guði er hér líkt við heimilisföður.

2.22 æskunnar girndir: Hér kemur margt til greina; sumir aðhyllast kenningar, sem kitla eyrun (4.3), aðrir gera sig seka um taumleysi (3.3) og enn aðrir elska munaðarlífið meira en Guð (3.4).

2.26 djöfulsins: Djöfullinn er höfðingi illþyðis og annarlegra afla, sem standa gegn Guði og lýð hans.