Ísraelsmenn til forna væntu þess að lifa eftir dauðann í niðjum sínum.  Því þótti það þungt andstreymi að eignast ekki son sem tryggði áframhald ættarinnar. Flestir voru á því að eftir dauðann rotnaði líkaminn og yrði að dufti (Pd 12.7;   Slm 104.29; Jb 7.9,10).  Sumir töldu að sálir dauðra ættu sér athvarf, þar sem þó væri daufleg vist án hugsunar og skynjunar (Pd 9.10; Jes 38.10).  Biblían kann að greina frá því að fáeinir menn dóu ekki, heldur fóru til rakleiðis himins (1Mós 5.21-24; 2Kon 2.1-14).

Í spádómsbók Daníels kemur fram sú hugmynd að menn séu reistir upp frá dauðum til nýs lífs og segir spámaðurinn það gilda jafnt um góða og vonda.  Eilíft líf fellur þeim góðu í skaut, en þeim vondu smán og andstyggð (Dan 12.1-3).  Í sumum Davíðssálma treystir skáldið því að Guð muni ekki ofurselja Helju hina trúuðu, heldur leysa líf þeirra frá gröfinni (Slm 16.10,11; 49.13-15; Jes 26.19).

Árið 586 f. Kr. voru Ísraelsmenn herleiddir til Babýlon. Þegar Persar sigruðu Babýloníumenn fengu hinir herleiddu að halda heim á ný (538 f. Kr.).  Sumir Ísraelsmenn urðu fyrir áhrifum af persneskum trúarbrögðum Persar trúðu því, að Satan, andstæðingur Guðs, yrði lagður að velli og sálir og líkamir trúaðra sem dánir væru, myndu reist aftur til lífs.  Á öldunum fjórum, sem liðu þangað til Jesús fæddist, höfðu grískir hugsuðir einnig áhrif á Gyðinga.  Grikkir töldu sálina ódauðlega, en líkaminn væri einungis forgengileg klæði hennar. Páll postuli ritaði safnaðarfólkinu í Korintu, að líkami lærisveina Krists mynd deyja, en upp myndi rísa “andlegur líkami.”  Þessi hugmynd er frábrugðin þeirri, sem lýsir því að sálin ein lifi eftir að líkaminn er orðinn að mold.  Páll segir, að maðurinn allur, líkami og sál, verði nýr og öðlist eilíft líf.

“Ég er upprisan og lífið,” segir Jesús (Jóh 11.25,26) og ennfremur, að hver sem á hann trúi hafi eilíft líf (Jóh 3.16). Saddúkear, flokkur trúrækinna Gyðinga, neituðu því að upprisa væri til (sjá athugagrein við Lúk 20.27).  Jesús sagði þeim, að þegar menn risu upp frá dauðum, kvæntust þeir hvorki né giftust, heldur væru sem englar á himnum (Mrk 12.18-27). Hann var spurður að því, hverjir fengju að stitja til borðs í Guðs ríki.  Flettu upp svari hans í Lúk 14.15-24.

Þegar í frumkirkjunni trúðu menn því að lýður Guðs yrði reistur upp til nýs lífs af því að Guð reisti Jesú upp frá dauðum (Post 2.22-24; 29-32; 1Kor 15.20-28; 1Þess 4.13-17).  Í 21. kapítula Opinberunarbókar Jóhannesar er að finna lýsingu á borginni helgu, nýrri Jerúsalem, þar sem Guð mun búa hjá mönnunum og þeir munu vera fólk hans, sem hann verndar og fæðir að eilífu (Es 37.26,27; Matt 1.23; 2Kor 4.16-5.5).