10.1 sauðabyrgið…þjófur og ræningi: Fjárbyrgi var til þess að geyma í því sauðfé og geitur yfir nótt.

10.2-3 Dyravörðurinn: Hann sér um það hverjir eða hvað fer um dyrnar inn í byrgið. Hann var oft hirðirinn sjálfur, sem kastaði tölu á féð þegar það rann inn í byrgið undir nóttina. Aðeins varð farið inn og út úr byrginu um dyrnar.

10.2-3 sauðirnir heyra raust hans: Víða í Biblíunni tákna kindur og fjárhópar lýð Guðs (Slm 77.20; 80.10; Jes 40.1). Sjá og Es 34.11-16. Sjá ennfremur „Fjárhirðar„. Þegar í frumkristni var mynd af „Góða hirðinum“ tákn sjálfs Jesú.

10.7 Ég er dyr sauðanna: Sjá athugagrein við 10.2-3. Jesús er dyr sauðanna (lærisveina sinna) og ræður því hverjir fá að ganga inn um dyrnar. Hann er og vörður þeirra og verndari.

10.8 þjófar og ræningjar: Hér á Jesús við þá sem kennt hafa fólkinu (hjörð Guðs) að skilja lögmál Móse svo, að menn gerðu það sem gagnstætt var vilja Guðs.

10.11 Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina: Sjá 10.15; 13.37; 15.13 og athugagrein við 1.29.

10.13 gætir…sauðanna…fyrir borgun: Hér er sneitt að ráðamönnum Ísraels. Jesús er góði hirðirinn, sem „á“ sauðina og flýr aldrei þótt ógnir steðji að.

10.16 ein hjörð, einn hirðir: Jesús vill að lærisveinar hans séu allir „eitt“ þrátt fyrir það sem kann að aðskilja þá (sjá og Gal 3.26-29).

10.20 illan anda: Sjá athugagrein við 6.70,71.

10.22 vígsluhátíðin: Musterið í Jerúsalem var í Makkabeastyrjöldunum um hríð í höndum Antíokkusar IV Epífanesar, Sýrlandskonungs, og hafði hann látið koma þar fyrir líkneski af sjálfum sér. Vígsluhátíðin (stundum kölluð ljósahátíðin) var haldin til þess að minnast hreinsunar og endurvígslu musterisins, eftir að Gyðingum tókst að reka óvinina á brott og ná því aftur. Vígsluhátíðin er líka nefnd Hanukkah.

10.23 súlnagöngum Salómons: Þessi staður, austan og sunnan musterissvæðisins, var settur gríðarmiklum steinsúlum og opinn almenningi.

10.24 Kristur: Sjá athugagrein við 1.19-20 (Messías).

10.28 eilíft líf: Sjá athugagrein við 3.15.

10.29 er meiri en allir: Í sumum handritum: „Það sem faðir minn hefur gefið mér er öllu öðru meira.“

10.31 tóku aftur upp steina: Sjá athugagrein við 1.19-20 (ráðamenn). Þeir sem óhlýðnuðust lögmáli Móse og stefndu hreinleika samfélagsins í tvísýnu skyldu líflátnir af fjöldanum (3Mós 24.15,16; 5Mós 21.18-21; 22.20-22). Grjóthnullungum var kastað í þann dauðadæmda og lík hans hulið með þeim.

10.33 Þú gerir sjálfan þig að Guði: Leiðtogar Gyðingar sökuðu Jesú um að hann gerði sig Guði jafnan. Þeir töldu, að hann væri aðeins maður, og gerði sig því sekan um guðlast, en það var dauðasök.

10.35 ritningin: Helgirit Gyðinga, sem kristnir menn nefna Gamla testamenti.

10.40 yfir um Jórdan: Jesús komst undan og stefndi í austur frá Jerúsalem, yfir ána Jórdan og í nánd við þann stað þar sem Jóhannes hafði verið að skíra (sjá athugagrein við 1.28).