12.1 bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi…fórn: Fórnir gegndu þýðingarmiklu hlutverki í trúariðkun gyðinga á dögum Páls, svo sem einnig í öðrum trúarbrögðum. Sjá „Fórnirnar í musterinu“. En Páll segir, að lærisveinar Jesú þurfi ekki að slátra skepnum eða færa aðrar fórnargjafir til þess að ávinna sér velþóknun Guðs. Þeir eigi hins vegar að færa sjálfa sig Guði í þjónustu við hann.

12.2 heims: Með „heiminum“ á Páll við jarðlífið hér og nú, með öllu því sem er illt og andstætt Guði en engu að síður í miklum metum hjá mönnunum. Hann vissi, að slíkt er þó næsta hverfult og verður loks að engu (sjá 1Kor 2.6-8).

12.5 einn líkami í Kristi: Páll ræðir hér um allan lærisveinahóp Jesú, en kirkjan er stundum nefnd „líkami Krists“ á jörðu. Sjá og 1Kor 12.12-31.

12.6 margvíslegar náðargáfur: Heilagur andi gefur lærisveinum Jesú mismunandi gjafir. Sumar þessar „náðargáfur“ eru taldar upp í 12.6-8. „Spádómsgáfa“ lýsir sér í því að menn búa yfir sérstökum hæfileika til þess að nema boðskap Guðs og færa hann öðru fólki. Aðrar gáfur, sem hér eru nefndar eru þjónustustarf, kennsla, gjafmildi og forysta (þeir, sem veita forstöðu). Sjá og 1Kor 12.4-11.

12.11 í andanum: Sjá athugagrein við 1.3-4 (heilagur andi).

12.13 Takið þátt í þörfum heilagra…gestrisni: Páll og aðrir postular frumkirkjunnar létu ekki undir höfuð leggjast að safna fé til styrktar fátækum. Gyðingar unnu góðan beina gestum, sem að garði bar og buðu fram bæði mat og næturgreiða. Páll hvetur lærisveina Jesú til þess að fara að dæmi þeirra og muna eftir gestrisninni.

12.16 umgangist fúslega lítilmagna: Eða „Víkið ykkur ekki undan því að inna af hendi algeng störf.“

12.19 eins og ritað er: Sjá athugagrein við 10.11.