Á dögum Jesú tilbáðu Gyðingar Guð í musterinu í Jerúsalem og færðu honum fórnir. Um þær mælti lögmál Móse svo fyrir, að skepnum skyldi slátrað, en korn og reykelsi brennt. Sumar fórnir mátti færa hvaða dag sem var, en aðrar aðeins á tilteknum dögum eins og t.d. hinum mikla degi fyrirgefningarinnar (á friðþægingardaginn). Sumt fórnarkjötið í musterinu var etið af prestunum og aðstoðarmönnum þeirra.

Ekki einasta komu Gyðingar með fórnardýr og brennifórnir til fyrirgefningar synda, heldur færðu þeir og að gjöf grænmeti, djásn og peninga, prestunum og aðstoðarmönnum þeirra til uppihalds og til reksturs musterisins. Í Móselögum var og kveðið svo á, að menn skyldu gjalda Drottni tíunda hluta af jarðargróða og öðrum tekjum sínum (3.Mós 27.30-33; 4Mós 18.21-32). Það var kallað tíund.

Það var trú Gyðinga að Guð væri þeim nærri í hinu allrahelgasta í musterinu. Dag hvern voru honum færðar fórnargjafir líkt og þegar þjónar bera fram fyrir húsbændur sína mat, glaðning og góða gripi. Verðmæti gjafanna var undir gefandanum komið. Þannig færðu auðmenn dýrari gjafir en þeir sem fátækir voru.

Sumar fórnir voru færðar Guði í því skyni að gangast við sekt og beiðast fyrirgefningar synda (3Mós 4.1-6.7; 6.24-30; 7.1-6; 8.14-17; 16.3-22). Til annarra var efnt til þess að tilbiðja Guð, þakka honum og heiðra hann (3Mós 1-3; 6.8-23; 7.11-34). Tökum eftir því að Jesús hrósaði fátæku ekkjunni sem gaf aleigu sína (Lúkas 21.1-4) en snupraði þá sem láta mikið á rausnarskap sínum bera og vanrækja um leið það sem mikilvægast er í lögmálinu, svo sem réttlæti, miskunn og trúfesti (Matt 23.23,24).