11.2 hreina mey: Meðal bæði Gyðinga og Grikkja var brúður sýnu eftirsóknarverðari, ef hún hafði ekki karlmanns kennt. Páll líkir sjálfum sér við föður, en Korintumönnum við hreina mey. Föðurnum er í mun að varðveita meyna óspjallaða uns réttur eiginmaður er fundinn, þ.e. Kristur. Sjá og Ef 5.23,24; Fil 1.9-11; Opb 21.1,2.)

11.4 anda: Sjá athugagrein við 1.22.

11.5 hinum stórmiklu postulum: Þeir fluttu annan boðskap en Páll (11.4). En þessir „stórmiklu postular“ voru trúlega slyngir lýðskrumarar. Og þeir virðast hafa farið fram á peningagreiðslur sjálfum sér til uppihalds.

Stórmiklu postularnir kunna að hafa verið þeir sömu og Páll kallar „hina mikillátu“ í 1Kor 4.19. Þeir þóttust búa yfir visku æðri og meiri en Páll og hinir postularnir. Þessi viska var „gnostismi“ (af gríska orðinu „gnósis“ sem þýðir þekking). Gnostíkar aðhylltust ýmsar trúar- og heimspekikenningar hins gríska menningarsvæðis. Þeir héldu því fram, að líkaminn og hið efnislega væri illt, en speki andans góð. Þeir sögðu að menn eignuðust samfélag við Guð ef þeir hefðu í heiðri ákveðin, andleg sannindi. Þeir gerðu lítið úr krossi Krists af því að þeir töldu að Guð gripi seint til svo jarðbundins, áþreifanlegs hlutar til þess að færa mönnum frelsun.

11.7 boðaði ykkur fagnaðarerindið ókeypis: Páll ætlaðist ekki til launa fyrir kennslu sína og prédikun (1Kor 9.1-23). Þar af leiðandi var hann upp á framlög frá öðrum söfnuðum kominn, á meðan hann dvaldi í Korintu (11.8,9).

11.14 Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd: Sjáathugagrein við 4.4. Í einu riti Gyðinga (sem ekki er í Biblíunni) eru samverkamenn Satans nefndir „ljósenglar.“

11.15 þjónar hans: Falspostularnir, sem nefndir eru í 11.13.

11.20 einhver hneppi ykkur í ánauð: Páll grípur til líkingamáls. Hann á ekki við það, að Korintumenn séu þrælar í þess orðs venjulegu merkingu, heldur hafi þeir aðhyllst falspostula og boðskap þeirra. Þeim peningum var illa varið, sem greiddir voru falskennurum.

11.22 Hebrear…Abrahams niðjar: Falspostularnir voru Gyðingar eins og Páll. Hann efast ekki um, að meðal þegna hins nýja Guðs lýðs sé og fólk af Ísraelsþjóð. Í þennan tíma veltu margir hópar manna því fyrir sér hver væri með sanni lýður Guðs. Páll er í engum vafa um svarið: Það eru lærisveinar Jesú Krists.

11.24,25 höggin þrjátíu og níu…beðið skipbrot: Öfugt við falspostulana, sem höfðu gert sér lítið fyrir og slegið suma Korintumenn í andlitið, hafði Páll sjálfur þráfaldlega mátt þola ofbeldi og barsmíðar (Post 14.9; 16.22). Í Móselögum var kveðið svo á, að engan mann skyldi hýða fleiri en fjörutíu vandarhöggum (5Mós 25.3). Í 27. kapítula Postulasögunni segir frá því er Páll beið eitt þessara þriggja skipbrota.

11.32,33 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina: Í Post 9.23-25 er því lýst, er Páll slapp á brott frá Damaskus. Páll hafði áður farið til Damaskus og ofsótt þar lærisveina Krists Sjá og Post 9.1-19.