8.1 Olíufjallsins: Olíufjallið, um tvo og hálfan kílómetra austan við musterissvæðið í Jerúsalem og handan við Kedrondalinn, er fjögurra kílómetra langur hryggur og hluti af fjallgarði sem liggur eftir endilangri Palestínu. Nafn sitt dregur það af olíuviði sem dafnar í sólríkum hlíðum þess.

8.2 helgidóminn: Sjá athugagrein við 7.14.

8.3 Farísear og fræðimenn: Sjá athugagreinvið 1.24 (farísear). Fræðimennirnir lögðu stund á rannsóknir á lögmáli Móse og kenndu fólki að lifa samkvæmt fyrirmælum þess (1.17).

8.5 Móse…í lögmálinu að grýta: Í lögmáli Móse var kveðið svo á, að kona sem samrekkti öðrum en eiginmanni sínum skyldi líflátin með grýtingu, og sömuleiðis friðill hennar (3Mós 10.10,22; 5Mós 22.22-24). Hér ræðir aðeins um konuna.

8.12 Ég er ljós heimsins: Jesús er kominn í heiminn til þess að segja frá Guði eins og hann er; Guð vill gefa öllum mönnum nýtt líf. Sjá og athugagrein við 1.7 og athugagrein á bls. 1944. Sjá og Matt 5.14; Jóh 9.5.

8.16 faðirinn: Sjá athugagrein við 5.17. Jesús er frá föðurnum kominn og fer aftur til hans að ríkja með honum að eilífu (814).

8.17 í lögmáli yðar…vitnisburður tveggja: Sjá athugagrein við 7.51.

8.20 hjá fjárhirslunni: Óhugsandi er að Jesús hafi rætt við faríseana inni í forðabúrum musterisins, þar eð einungis prestar mátta koma þangað inn. Á dögum Jesús voru 13 “fjárhirslur” í forgarði kvennanna í musterinu í Jerúsalem. Þær voru keilumyndaðar og vissi mjórri endinn niður (Lúk 21.1). Sjá og “Fórnirnar í musterinu”.

8.20 stund hans var enn ekki komin: Sjá athugagrein við 2.4.

8.23 Þér eruð neðan að, ég er ofan að: Jesús er kominn frá Guði á himnum (ofan að). Þegar hann segir við faríseana, að þeir séu “neðan að”, þá er hann að tala um “heiminn” sem víða í Nýja testamenti er talinn í andstöðu við Guð (15.18-19; Gal 6.14).

8.24 trúið ekki að ég sé sá sem ég er: Ýmis ummæli Jesú um sjálfan sig byrja á orðunum “ég er.” Sjá athugagrein við 6.20 og “Ég er“. Þeir sem ekki trúa á Jesú, Guðs son, verða af fyrirgefningu Guðs.

8.27 föðurinn: Sjá athugagrein við 5.17.

8.28 hefjið upp Mannssoninn: Sjá athugagrein við 7.39 (var ekki enn dýrlegur orðinn).

8.33 niðjar Abrahams…aldrei verið nokkurs manns þrælar: Sjá “Abraham”. Guð útvaldi Abraham (1Mós 12.1-3; 15.1-6; 17.1-8) og var því trúað, að hver sem rekti ættir sínar til hans væri barn Guðs. Ísraelsmenn höfðu fyrir eina tíð verið þrælar í Egyptalandi (2Mós 1.14), en voru nú þegnar rómverska heimsveldisins. Þeir héldu þó enn í þá trú, að þeir myndu aldrei verða nokkurs manns þrælar.

8.34,35 þræll syndarinnar: Sjá “Synd” og “Kærleikur Guðs frelsar (Hjálpræði)”.

8.44 djöfulinn: Djöfullinn, öðru nafni Satan, er höfðingi andstæðinga Guðs og lýðs hans. Jesús var af Guði sendur til þess að bera sigurorð af djöflinum og gera að engu öll verk hans (1Jóh 3.7,8).

8.48 þú sért Samverji: Sjá athugagrein við 4.3,4 og 4.9.

8.49 illan anda: Sjá athugagrein við 6.70,71.

8.52 Abraham dó og spámennirnir: Fólkið skilur ekki Jesú þegar hann segir að sá sem varðveiti orð hans skuli aldrei að eilífu deyja (8.51). Þegar eilíft líf var annars vegar, sýndist sitt hverjum (sjá athugagrein við 3.15).

8.56 Abraham… vænti þess með fögnuði að sjá dag minn: Jesús segir að Abraham hafi fengið að sjá það rætast sem Guð lofaði honum.

8.58 er ég: Sjá athugagreinar við 1.1-3 (Í upphafi) og 6.20 (“Ég er”).