Þegar Guð bauð Móse að leiða þjóð sína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi og til fyrirheitna landsins (Kanaanslands), þá sagði hann: “Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs” (2Mós 3.1-6). Þegar Móse spurði Guð hvað hann héti, þá var svarið: “Ég er sá sem ég er. Og svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: “Ég er” sendi mig til yðar.”

Hebreska nafnið Yahweh er talið skylt hebresku sögninni “að vera” og kann því að þýða “ég er sá sem er” eða “ég verð það sem ég verð” eða jafnvel “ég er sá sem veld því sem er.” Þessar merkingar nafnsins benda til þess að Yahweh sé sá Guð semer, mui verða og er uppspretta allrar veru. Yahweh, Guð, er upphaf allra hluta og mun koma í framkvæmd þeim fyrirætlunum sem hann hefur í hyggju með lýð sinn og sköpun alla.

Í Jóhannesarguðspjalli hefjast mörg ummæli Jesú um sjálfan sig á orðunum “ég er.” Með þessu eignar hann sér eiginleika Guðs og eðli og lýsir því sem Guð hefur falið honum að vinna fyrir mannfólkið í heiminum. Jesús kveðst uppfylla allar þarfir (“ég er brauð lífsins,” Jóh 6.35) og hann segist færa mönnunum þekkingu á Guði (“ég er ljós heimsins,” Jóh 8.12). Á sama hátt staðhæfir hann að hann sé leiðin til Guðs og sá sem hjálpi fólki til þess að verða Guðs börn (“ég er dyr sauðanna,” Jóh 10.7-16; og “ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,” Jóh 14.6). Hann notar líkingu úr spádómsbók Jesaja og kveðst sjálfur vera “hinn sanni vínviður”, en segir jafnframt að lærisveinar hans séu “greinarnar”, sem allar njóti góðs af samlífi hins nýja Guðs lýðs (Jóh 15.1,5; sjá og Jes 5.1-7). Þegar Jesús vitnar með þessum hætti í helgirit Gyðinga, gefur hann til kynna að hann hafi frá upphafi verið hjá Guði: “Áður en Abraham fæddist er ég” (8.58).