16.1 Föbe…djákni safnaðarins í Kenkreu: Hún er ekki nefnd annars staðar í Nýja testamenti. Orðið, sem hér er þýtt með „djákni“ getur líka merkt „leiðtogi.“ Ljóst er, að konur gegndu engu síður forystuhlutverki í frumkirkjunni en karlmenn. Kenkrea var hafnarbær um 11 km. suðaustur af Korintu.

16.3 Prisku og Akvílasi: Þessi hjón höfðu áður átt heima í Rómaborg, en verið vísað þaðan brott ásamt öðrum Gyðingum kringum árið 49 e. Kr. (sjá innganginn að Rómverjabréfinu). Þau unnu síðar að tjaldgjörð með Páli. Sjá og Post 18.18-26; 1Kor 16.19 og 2Tím 4.19.

16.5,6 Epænetusi…Maríu: Epænetusar er aðeins getið hér og hvergi annars staðar í Nýjatestamenti. Ekki er vitað, hvort María er einhver þeirra kvenna með því nafni, sem frá er sagt í guðspjöllunum og Postulasögunni.

16.7 Andróníkusi og Júníu…postulanna: Nöfn þeirra koma ekki fyrir annars staðar í Nýja testameni. Júnía er að líkindum kvenmannsnafn. Orðið „postuli“ er sums staðar í Nýja testamenti notað í víðari merkingu en „einn hinna tólf, sem Jesús valdi.“ Svo mun og hér.

16.8-15 Amplíatusi…Olympasi: Ekkert þeirra mörgu mannanafna sem fyrir koma í þessum versum eru nefnd annars staðar í Nýja testamenti. Tryfæna, Tryfósa, Persis, Júlía og Olympas eru kvenmannsnöfn og vitna um forystustörf kvenna í frumkirkjunni.

16.20 Satan: Satan merkir „andstæðingur.“

16.21 Tímóteus: Hann var „sonur trúaðrar konu af gyðingaætt, en faðir hans var grískur…Páll vildi hafa hann með sér og umskar hann sökum Gyðinga,“ eins og segir í Post 16.1-3.

16.21 Lúkíus, Jason og Sósípater: Lúkíus einhver er nefndur í Post 13.1 og nafnið Jason kemur fyrir í Post 17.5-9, en óvíst er að um sömu menn sé að ræða og hér. Nafnið Sósípater kann að vera afbrugðningur af nafninu Sópater í Post 20.4.

16.22 Tertíus: Tertíus þessi skrifaði upp það, sem Páll las honum fyrir. Einhver líkamlegur annmarki kann að hafa komið í veg fyrir að Páll gæti skrifað sjálfur. Sjá og 2Kor 10.10; 12.7; Gal 4.13-16; 6.11.

16.23-24 Gajus…Erastus…Kvartus: Nafnið Gajus kemur líka fyrir í Post 19.29; 20.4; 1Kor 1.14 og 3Jóh 1, en ekki mun um sama mann að ræða í hverju tilfelli. Erastus og Kvartus eru ekki nefndir annars staðar í Nýja testamenti. Þar sem Erastus var gjaldkeri borgarinnar, bendir það ákveðið til þess að fagnaðarerindið um Jesú Krist hafði um þessar mundir ekki einasta náð til hinna fátæku, heldur einnig hinna ríku.

16.25 fagnaðarerindi: Sjá athugagrein við 1.1 (postuli…fagnaðarerindi).

16.26 í spámannlegum ritningum…að boði Guðs kunngjörður: Sjá athugagrein við 1.2 (spámenn).