3.1 Sardes: Orð fór af borginni Sardes fyrir ullariðnað. Þar var og áköf keisaradýrkun. Borgin eyðilagðist af völdum mikils jarðskjálfta árið 17 e. Kr.

3.3 bæt ráð þitt…ef þú vakir ekki: Sjá athugagrein við 1.5. Jóhannes minnir hina kristnu í Sardes á forfeður þeirra, sem ráðist var á óvörum. Sjá og Matt 24.43,44; Lúk 12.39,40; Opb 16.15.

3.4 í hvítum klæðum: Alþekkt tákn hreinleika hið innra. Sjá og Dan 7.9.

3.5 bók lífsins: Bókin, sem geymir nöfn réttlátra (sjá 2Mós 32.32,33; Slm 69.29; Dan 12.1; Fil 4.3; Opb 20.12). Kristur mun segja Föðurnum nöfn hinna trúu (sjá og Matt 10.32; Lúk 12.8).

3.7 Fíladelfíu: Fíladelfía fékk líka að kenna á jarðskjálftanum sem eyðilagði Sardes (sjá athugagrein við 3.1), en lokið var við að reisa borgina að nýju á milli 80 og 90 e. Kr. Aðalatvinnuvegir íbúanna voru landbúnaður, leðuriðja og tóvinna.

3.7 lykil Davíðs: Lykillinn táknar vald yfir konungdæmi Davíðs. Drottinn hét Davíð því, að einn niðja hans mundi stjórna friðarríki sem engan enda tæki (2Sam 7.11-16; Jes 9.6,7). Jesús er afkomandi Davíðs, hinn smurði Drottins og útvaldi konungur, og á honum hafa hinir fornu spádómar ræst.

3.8 ekki afneitað mér: Eða “ekki afneitað nafni mínu.”

3.9 af samkundu Satans, sem segjast vera Gyðingar: Vísast er átt við Gyðingana í samkunduhúsinu í Fíladelfíu, sem andvígir voru hverjum þeim sem trúðu að Jesús væri hinn smurði Drottins, Messías. Sjá athugagrein við 2.9 (segja sjálfa sig vera Gyðinga). Líka getur verið, að “samkunda Satans” eigi við heiðing-kristna menn, sem fóru að siðum og reglum í lögmáli Móse og kváðust því vera Gyðingar.

3.10 reynslustund: Tíminn þangað til Jesús kemur aftur að dæma lifendur og dauða (2Pét 3.10-13; Opb 6.10; 16.14,15). Víða í Nýja testamenti er það minnt, að meðan hinir kristnu bíða endurkomu Krists muni þeir þurfa að ganga í gegnum erfiðleika og þrengingar (1Jóh 2.18; 2Pét 3.3,4; 2Tím 3.1-9). Sjá og “Efstu dagar“.

3.12 máttarstólpa í musteri Guðs: Hinir kristnu í Fíladelfíu höfðu mátt horfa upp á rammbyggð musteri hrynja til grunna í jarðskjálfta. Þegar þeir heyrðu sjálfa sig kallaða máttarstólpa er standa mundu um aldurdaga, minntust þeir hinna “lifandi steina” (1Pét 2.5).

3.14 Laódíkeu: Antíokkus II konungur Sýrlands reisti borgina Laódíkeu á 3. öldinni f. Kr. og nefndi eftir konu sinni, Laódíke. Laódíkea var rómuð fyrir banka sína, fatnað og gólfteppi, svarta ull og lækna, sem bjuggu til augnsmyrsl handa öllu rómverska heimsveldinu. Þegar jarðskjálft stórskemmdi borgina árið 60 e. Kr., stóð hún svo traustum fótum fjárhagslega, að unnt var að byggja hana að nýju án aðstoðar frá Róm.

3.14 amen: Orðið merkir hér “áreiðanleiki.”

3.17 Þú segir: “Ég er ríkur…: Þessi orð eru fullkomin andstæða þess, sem sem hinir fátæku kristnu menn í Smyrnu fengu að heyra. Sjá athugagrein við 2.9 (fátækt). Margir safnaðarmeðlimir í Laódíkeu hafa verið happasælir auðmenn (sjá athugagrein við 3.14: Laódíkeu). En þeir voru andlegir öreigar af því að líferni þeirra bar ekki vott um kristna trú.

3.18 kaupir af mér gull…hvít klæði…smyrsl á augu þín: Hinir ríku í Laódíkeu hafa óefað átt gnægð skartgripa úr gulli og rándýran fatnað. Þeim var ráðlagt að skipta nú á gersemum sínum og því gulli, sem “skírt er í eldi.” Það gull kanna að merkja gjafir heilags anda, eða hið dýrmæta blóð Krists sem gaf líf sitt til lausnargjalds fyrir marga (sjá 1Pét 1.18,19), eða þá andlegu blessun sem þeim hlotnast, sem þola þjáningar vegna Krists.

Sjá athugagrein við 3.4 (í hvítum klæðum).

Með smyrslunum, sem þeim var sagt að kaupa sér, er trúlega vísað til augnsmyrslanna, sem búin voru til í Laódíkeu. Á sama hátt og áburður þessi kom að góðu gagni við augnsjúkdómum, mundi sannleikurinn um Jesú opna augu safnaðarmanna í Laódíkeu fyrir andlegum gæðum (3.19).