13.1 Hátíð páskanna: Sjá athugagrein við 2.13 (Páskar). Ekki er ljóst hve löngu fyrir páska þetta var. Í samstofna guðspjöllunum (Matteus, Markús og Lúkas) er síðasta kvöldmáltíð Jesú með postulum sínum páskamáltíðin (sjá t.d. Mrk 14.12).

13.2 Djöfullinn…blásið því í brjóst Júdasi: Sjá athugagrein við 8.44 (djöfullinn), Satan og athugagreinar við 6.70,71 og 12.4 (Júdas). Nánar um Júdas í Mrk 14.10,11 og Lúk 22.3-6.

13.5 tók að þvo fætur lærisveinanna: Í mannfélagi Gyðinga til forna var það í verkahring þjóna að þvo húsbændum sínum um fæturna. Jesús er hér í hlutverki þjónsins. Verknaðurinn bendir fram til þeirrar stundar, þegar Jesús mun veita þá miklu og óviðjafnanlegu þjónustu að deyja á krossinum, láta líf sitt sem lausnargjald fyrir marga.

13.6 Símoni Pétri: Sjá athugagrein við 1.42. Viðbrögð Péturs við fótaþvottinum (13.8) eru eðlileg, þar eð Jesús var óumdeildur fyrirliði postulanna.

13.11 ekki allir hreinir: Jesús á hér við Júdas (13.2).

13.12 sest aftur niður: Jesús fór aftur á sinn stað við borðið. Við sérstök tækifæri fóru Gyðingar að siðum Grikkja og Rómverja og lágu til borðs, hvíldu á vinstri olnboga og snæddu með hægri hendi.

13.12-15 Sbr. Lúk 22.27.

13.13 Drottin: “Drottinn” er á grísku kyrios, sem getur þýtt meistari eða herra. Með því að ávarpa Jesú svo, er kveðið ríkt á um vald hans og mátt. Sjá og athugagrein við 20.28 og “Drottinn“.

13.19 ég er: Sjá athugagreinar við 6.20 og 8.24.

13.21 Einn af yður mun svíkja mig: Sjá athugagreinar við 13.2 og 13.11.

13.23 Sá lærisveinn Jesú sem hann elskaði: Í Jóhannesarguðspjalli kemur fram að Jesús hafi unnað einum lærisveini sínum um aðra fram (19.26 og 20.2). Ekki er ljóst hver hann var. Sjá og athugagrein við 21.24.

13.24 Símon Pétur: Sjá athugagrein við 1.42.

13.26,27 Júdasi…Satan: Sjá athugagrein við 2. vers.

13.29 til hátíðarinnar: Páskahátíðin (sjá athugagrein við 2.13).

13.31 Mannssonurinn dýrlegur orðinn: Sjá athugagrein við 1.51 og “Mannssonurinn“; sjá og athugagrein við 7.39 (dýrlegur orðinn).

13.34 Nýtt boðorð…elskið hvert annað: Lærisveinar Jesú eiga að taka sér kærleika hans til fyrirmyndar. Þeir eiga að elska hver annan á sama hátt og Jesús elskar þá (Jóh 15.12,17; 1Jóh 3.23; 2Jóh 5).

13.36 Símon Pétur: Sjá athugagrein við 1.42.

13.38 Ekki mun hani gala fyrr: Hanar gala í morgunsárið. Jesús segir Pétri að hann muni þrisvar afneita sér áður en dagur rennur.