7.1-2 fjóra engla: Sjá athugagrein við 1.1 („Engill“). Þessum englum er gefið vald til þess að vinna jörðinni mein. En söfnuði Guðs munu þeir hlífa og hann mun eignast hlutdeild í hinni nýju sköpun hans.

7.1-2 innsigli lifanda Guðs: Hér má vera, að vísað sé til signets eins og þeirra, sem konungar höfðu á innsiglishringjum sínum, og voru tákn persónunnar eða embættisins, notuð á skjöl og sendibréf til staðfestingar eða til að loka þeim. Innsiglið er merki um eignarrétt.

7.4 Hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir: Þessi táknræna tala er þannig fengin, að tólf ættkvíslir Ísraels eru margfaldaðar með tólf og síðan með þúsund. Talan tólf var með fleiru álitin ímynd fullkomnunar. Þessi hópur stendur því fyrir allan söfnuð Guðs. En raunveruleg stærð hans er meiri en Jóhannes fái talið (7.9). Sjá „Tölur í Biblíunni“.

7.5-8 Júda…Benjamíns: Í þessum versum eru talin upp nöfnin á ættkvíslum Ísraels. Manasse ættkvísl kemur hér í staðinn fyrir ættkvísl Dans, trúlega af því að niðjar Dans höfðu tilbeðið skurðgoð (Dóm 18; 1Kon 12.28-33).

7.9 hvítum skikkjum…pálmagreinar: Sjá athugagrein við 3.4 (í hvítum klæðum). Pálmagreinar voru sigur-og gleðitákn.

7.11 öldungana og verurnar fjórar: Sjá athugagreinar við 4.4-10 (öldungarnir) og 4.6-9 (fjórar verur).

7.12 Amen: Sjá athugagrein við 5.14.

7.14 hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins: Þessi orð merkja, að þeir, sem um ræðir, hafa hlotið fyrirgefningu Guðs í Kristi. Sjá og athugagrein við 5.6 (lamb). Hvítu klæðin eru til marks um hreinlífi.

7.17 lambið…mun vera hirðir þeirra: Sjá athugagrein við 5.6 (lamb). Bæði Guði föður, og syninum Jesú Kristi, er í Biblíunni líkt við fjárhirðinn (sjá Slm 23.1; Es 34.11-30; Jóh 10.7-16).