Óvinir Guðs að velli lagðir

Óvinir Guðs, Babýlon (rómverska heimsveldið) og Satan, verða gjörsigraðir. Þegar Jóhannes sér dóm Guðs í sýn, birtist honum allra snöggvast önnur sýn. Sú opinberar honum þær fyrirætlanir Guðs fólki sínu til heilla, sem nú ná lokamarki sínu í brúðkaupsveislu lambsins (19.kapítuli).

17.1 skækjunni miklu: Átt er við höfuðstað rómverska heimsveldisins, sjálfa Rómaborg. Þar voru æði margir ósiðsamir og drembilátir í senn. Þjóðir og leiðtogar, sem Rómaveldi hefur lagt undir sig, eru sagðir hafa drýgt saurlifnað með skækjunni (17.2).

17.3 konu sitja á skarlatsrauðu dýri: Sjá athugagrein við 13.1 (dýr). Konan er Rómaborg, hin sama og í 17.1.

17.4 klædd í purpura og skarlat: Purpuraklæði þóttu við hæfi konunga og háttsettra fyrirmanna (sjá Dóm 8.26; Dan 5.7). Purpuri er sérstakur, dýr, rauðfjólublár litur, fyrrum unninn úr purpuraskel og sérstakri skordýrategund, skjaldlúsinni. Skarlatsrauður litur er eldrauður með appelsínugulum eða fjólubláum blæ og er oftast litur alvöru og drunga, en kann hér að tákna blóð hinna kristnu píslarvotta (17.6).

17.6 drukkin af blóði hinna heilögu: Gæðingar í Róm höfðu látið taka marga kristna menn af lífi. Í Annálumsínum lýsir rómverski sagnaritarinn Tacitus ofsóknum Nerós keisara á hendur hinum kristnu á sjöunda áratugnum e. Kr.

17.7 dýrsins með höfuðin sjö: Sjá athugagrein við 13.1.

17.8 lífsins bók: Sjá athugagrein við 3.5.

17.9-11 Höfuðin sjö…sjö konungar: Rómaborg var reist á sjö hæðum. „Höfuðin sjö“ eru keisararnir í Róm (hér nefndir konungar). Ekki er ljóst, hvaða sjö keisara Jóhannes hefur í huga.

17.12,13 hornin tíu…tíu konungar: Hér kann að vera átt við tíu rómverska keisara í viðbót, sem ljá dýrinu (Satan) mátt sinn og vald. Eða þá að vísað er til tíu þjóðarleiðtoga, sem styðja heimsveldið.

17.14 lambið: Sjá athugagrein við 5.6. Konungarnir (17.12,13) munu heyja stríð við lambið, en það merkir að þeir munu ofsækja játendur Jesú og kirkjuna (sjá 19.11-21).

17.16 munu hata skækjuna: Þjóðirnar, sem nú styðja Rómaveldi, munu um síðir snúast gegn því og bera hærra hlut.