Páll heldur fast fram postuladómi sínum.

Hér verst Páll árásum mótstöðumanna sinna í Korintu. Hann minnir þá á, að hann hafi þjáðst vegna fagnaðarerindisins og hlotið vitranir frá Guði. Hann snýst gegn falspostulum, sem hafa stært sig af eigin opinberunum, en níðst um leið á Korintumönnum.

10.2 stjórnast af mannlegum hvötum: Sumir báru Páli það á brýn, að hann væri ekkert nema blíðmælin framan í menn, en allur annar á bak (10.1). Aðrir núðu honum því um nasir, að hann og samverkamenn hans létu stjórnast af mannlegum hvötum, þ.e. hegðuðu sér að hætti heimsins. „Heimurinn“ hjá Páli merkir menn og málefni í andstöðu við Drottin Guð (Róm 12.2; Gal 4.3; 1Kor 6.14).

10.4 vopn Guðs: Hér á Páll við kraft heilags anda. Það er hann sem eflir Pál og aðra postula til orða og verka, er sannfæra menn um að fagnaðarerindið um Jesú sé sannleikur.

10.10 Bréfin…eru þung og ströng: Í einu þeirra bréfa, sem Páll ritaði Korintumönnum, mun hann hafa verið æði harðorður og það svo, að sumu safnaðarfólki þótti við hann. Annað hvort hefur þetta verið bréfið sem um ræðir í 1Kor 5.9 eða þá bréfið sem minnst er á í 2Kor 2.1-4. Einhverjir munu hafa haft á orði, að Páll væri óáheyrilegur ræðumaður. Í 1Kor 2.3 viðurkennir Páll að hann hafi verið haldinn „ótta og mikilli angist“ fyrst þegar hann heimsótti Korintumenn.

10.15 ég miklast ekki: Bersýnilega hafa einhverjir mótstöðumanna Páls eignað sér sjálfum boðskapinn í staðinn fyrir að láta Pál njóta sannmælis ellegar gefa Guði dýrðina.