Forstöðumenn safnaða (öldungar) og villukennendur
Páll heilsar Títusi ástúðlega og minnir hann á, að honum beri að skipa forstöðumenn og starfsfólk safnaðanna á Krít. Hann telur upp þá eiginleika, sem þetta fólk þarf að vera búið og áréttar við Títus, að hann tali „það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu.“ Hann varar Títus við villukennendum, sem bersýnilega hafa spillt fyrir fjölskyldum og verið til vandræða.
1.1 Páli, þjóni Guðs, postula Jesú Krists: Sjá „Páll (Sál) frá Tarsus„. „Postuli“ merkir „sá, sem sendur er“, hér maður sem Guð hefur útvalið til þess að breiða út fagnaðarerindið um Krist Jesú, sem líka er nefnt „gleðilegur boðskapur.“
„Kristur“ er christos á grísku, á hebresku „Messías“ sem þýðir hinn smurði.
1.1 trú…þekkingu á sannleikanum: Víða í bréfum sínum kennir Páll, að trú sé umfram allt traust á Kristi, en hér er merkingin í orðinu „trú“ fremur kenningar, kristin sannindi og reglur um góðan lifnað og Guði þóknanlegan, og er sú merking síðar til komin í kirkjunni. Orðið, sem hér er þýtt með „guðrækni“ er á grísku „evsebeia“ og kemur hvergi fyrir í eldri bréfum Páls.
1.2 vonin um eilíft líf: Sjá „Eilíft líf„.
1.3 fól Guð, frelsari vor, mér: Í Títusarbréfi, eins og líka í Fyrra og Síðara Tímóteusarbréfi, er orðið „frelsari“ jöfnum höndum notað um Guð (1Tím 1.1;2.3; 4.10; Tít 1.3; 2.10) og Jesú (2Tím 1.10; Tít 1.4; 2.13).
1.4 Títus: Títus var grískur að uppruna og því heiðingi (ekki Gyðingur) áður en hann tók kristna trú. Hann var viðstaddur postulafundinn í Jerúsalem (49 e.Kr.), þegar leiðtogar safnaðarins þar ályktuðu, að heiðingja sem létu skírast þyrft ekki að umskera (Gal 2.19). Títus var samstarfsmaður Páls og átti verulegan þátt í því að setja niður erfiðar deilur í söfnuðinum í Korintu (2Kor 2.13; 7.5-7,13-15; 8.6, 16-24; 12.14-18).
1.4 Guði föður…frelsara: Jesús kallar Guð oft „föður“ (sjá t.d. Jóh 14). Hið sama gerir Páll í mörgum bréfa sinna ( Gal 1.2,3; 1Kor 1,3: Fil 1.2; Róm 1.7). Sjá og athugagreinar við 1.1 (Páli…Jesú Krists) og 1.3 (Guð, frelsari vori).
1.5 Krít heitir mikil ey í Miðjarðarhafi, suðaustur af Grikklandi. Þar blómgaðist mínósk menning svonefnd á öldunum frá 2000 til 1100 f. Kr., kennd við fornkonunginn og goðsagnapersónuna Mínos.Þjóðin var bæði læs og skrifandi, verslaði við Grikki og fleiri nágranna í kringum Miðjarðarhafið, og naut auðsældar. Við þröngar götur þéttbýlla borga stóðu margra hæða hús og miklar hallir með viðhafnarherbergjum, þakgluggum, vatnsleiðslum, sorpræsum og loftræsti- og kælikerfum. Höfundur Postulasögunnar nefnir Gyðinga frá Krít, sem hann segir hafa verið stadda í Jerúsalem vegna uppskeruhátíðarinnar (hvítasunnunnar; sjá Post 2.11). Á ferð sinni til Rómar kom Páll postuli við á Krít (Post 22.7-21).
1.5 öldunga: Öldungur er á grísku „presbyter“ (sama orðið og „prestur“). Þeir skyldu uppfræða í trúnni og vera í forsvari fyrir söfnuði sína. Sjá og „Kirkja„.
1.7 biskup: Á grísku „epískópos“ (tilsjónarmaður). Í frumkirkjunni var biskup helsti forstöðumaður safnaðar. Biskupum var síðar falin umsjón með söfnuðum á ákveðnu landsvæði.
1.10 þverlyndir…blaðra um hégóma og leiða í villu: „Hégóminn“ gæti verið sá málflutningur gyðing-kristinna manna á Krít, að umskera bæri karlmenn og piltbörn í kristnum söfnuði. Páll og Títus höfðu áður ályktað um það málefni, þegar þeir sátu postulafundinn í Jerúsalem, ásamt með öðrum safnaðarleiðtogum (sjá Gal 2.1-10). Þá munu og hafa verið á kreiki menn, sem reyndu að græða á því að sannfæra aðra um að þeir einir byggju yfir sannleikanum (sjá og 1Tím 6.5). Sumir villukennendur reyndu að koma sér inn undir hjá kvenfólkinu í því skyni að ná tökum á fjölskyldum þess síðar (2Tím 3.6,7).
1.12 Krítarmenn…óargadýr: Hér er vitnað í orð grísks heimspekings, sem Epímenídes hét, og up var á Krít um 600 f. Kr.
1.14 bábiljum Gyðinga og boðum manna: Ýkjusögur af gyðingafólki í ættartölum Fyrstu Mósebókar voru teknar trúanlegar í sumum ritum samtímans, sömuleiðis í skrifum Gnostíka. (Orðið „gnostismi“ er dregið af gríska orðinu „gnósis“ sem þýðir þekking). Gnostíkar aðhylltust ýmsar flóknar trúar- og heimspekikenningar hins gríska menningarsvæðis og óx enn fiskur um hrygg á öldunum eftir að Títusarbréf var ritað. Gnostíkar héldu því fram, að líkaminn og hið efnislega væri illt, en speki andans góð. Þeir kenndu, að menn eignuðust samfélag við Guð og öðluðust „sérstaka þekkingu“ á honum og veröldinni, ef þeir hefðu í heiðri ákveðin, andleg sannindi (sjá og 1Tím 1.3,4; 4.7; 2Tím 4.4). Sjá og „Átrúnaður og trúarhugmyndir á tímum Biblíunnar“.