Gríska orðið, sem í Nýja testamenti er á íslensku þýtt með “kirkja”, merkir samkoma eða söfnuður fólks sem trúir fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Safnaðarfólkinu hafa verið kunngjörðar fyrirætlanir Guðs og það hefur verið útvalið til þess að vinna verk hans hér í heimi.  Drottinn Jesús er “höfuð” kirkjunnar (Ef 1.22; Kól 1.18) og hún heyrir honum til.  Drottinn er á grísku kyrios og íslenska orðið “kirkja” er skylt gríska orðinu kyriakós sem merkir “það sem Drottins er”.

Í Nýja testamenti er kirkjunni lýst með mörgu móti.  Í Matteusarguðspjalli er hún hlýðinn Guðs lýður.  Í Rómverjabréfinu og Galatabréfinu segir Páll að kirkjan sé ný sköpun, en ekki hinn útvaldi lýður Guðs, sem samkvæmt helgiritum Gyðinga (Gamla testamenti) skyldi hlýða lögmáli Móse.  Jafnframt kallar Páll kirkjuna “líkama Krists” (1Kor 1.12,27-31). Í Lúkasarguðspjalli og Postulasögunni er það meginhlutverk lærisveina Jesú að vitna um hann fyrir öllum mönnum og allt til endimarka jarðarinnar (Post 1.8),  án tillits til þjóðernis eða kynþáttar.  Höfundur Fyrra Pétursbréfs segir kirkjuna vera “útvalda kynslóð, konunglegan prestdóm, heilaga þjóð og eignarlýð”  Drottins (1 Pét 2.9;  sjá og 2Mós 19.5,6).   Í Jóhannesarguðspjalli er kirkjan hjörð góða hirðisins (Jóh 10.16) og greinarnar á hinum sanna vínviði, sem er Jesús (Jóh 15.1-16).

Að postulum Jesú gengnum komst smám saman fastara skipulag á kirkjuna með ákveðinni kirkjuskipan, kirkjurétti og kirkjuaga.  Um fyrstu merki þessa má lesa í Efesusbréfinu, Fyrra og Síðara Tímóteusarbréfi og Títusarbréfinu, en auk þess í ritum  safnaðaleiðtoga frá annarri öld sem vant er að kalla kirkjufeðurna.  Þá voru og skipaðir “tilsjónarmenn” (á grísku episkopoi) eða biskupar, er skyldu hafa yfirumsjón með starfi kirknanna (safnaðanna).