11.1 postularnir og söfnuðurinn í Júdeu: Hér er átt við þá ellefu postula og þá lærisveina aðra, sem bjuggu í Jerúsalem og nágrenni. Þegar þessir atburðir urðu, var Jerúsalem enn þá miðstöð lærisveina Jesú.

11.1 heiðingjarnir: Sjá athugagrein við 10.45 (heiðingjunum).

11.2 umskurnarmennirnir: Sjá athugagrein við 7.8.

11.3 inn til óumskorinna manna og etið með þeim: Lögmál Móse mælti svo fyrir, að Gyðingar skyldu ekki umgangast heiðingja (þá, sem ekki voru gyðingatrúar) eða leggja sér til munns fæðu, sem heiðingjar höfðu farið um höndum. Þeim brá því mjög í brún, þegar þeir fréttu, að þetta hefði Pétur gert. Álitu þeir, að nú væri hann því óhreinn orðinn. Sjá „Hreinsanir (hreint og óhreint)„.

11.12,13 mannsins. Hann sagði okkur: Pétur á hér við Kornelíus hundraðshöfðingja. Sjá 10.1-4, 29-33.

11.17 þeim: Sjá athugagrein við 10.45 (heiðingjunum).

11.17 sömu gjöf: Pétur er hér að tala um Heilagan anda.

11.19 vegna ofsóknarinnar sem varð út af Stefáni: Sjá Post 6.8-8.4. Líflát Stefán píslarvottar varð til þess, að hinir fyrstu kristnu urðu mjög uggandi um sinn hag. Leiðtogar Gyðinga, eins og t.d. Sál, gerðu þeim lífið leitt heldur en ekki, svo að þeir tóku að flýja burt úr Jerúsalem og Júdeu, þangað sem þeir gátu óhræddir, að þeir töldu, safnast saman til helgishalds.

11.19,20 Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu…Kýrene: Fönikía var mjó, tæpra 200 km. löng strandlengja við Miðjarðarhafið fyrir norðan Palestínu. Helstu borgir þar voru Týrus og Sídon.

Kýpur er eyja í Miðjarðarhafinu norðaustanverðu, um 160 km. vestur af Sýrlandsströnd. Í þennan tíma tilheyrði hún rómverska heimsveldinu. Nýlendu Gyðinga var komið á fót á Kýpur um miðbik annarrar aldar f. Kr. Páll og Barnabas boðuðu Guðs orð í samkunduhúsum Gyðinga á Kýpur (13.4-12). Sjá og athugagreinar við 6.15 (Antíokkía) og 6.9 (Kýrene).

11.20 Grikkja: Gríska orðið í frumtextanum getur þýtt „þeir, sem tala grísku“ eða „þeir, sem semja sig að siðum Grikkja.“ Hér virðist orðið þó merkja „þeir, sem ekki eru Gyðingar.“ Sum handrit hafa „Grikkir,“ sem virðist þýða „þeir, sem ekki eru Gyðingar.“

11.21 hönd Drottins: Kraftur Heilags anda.

11.22 Barnabas: Sjá athugagrein við 4.36-37.

11.28 Agabus: Lærisveinn Jesú, sem hafði fyrir tilstilli Heilags anda hlotið spádómsgáfu (1Kor 12.7-11). Í Postulasögunni uppörva spámenn venjulega lærisveina Krists og styrkja þá með boðskap frá Guði (15.32), en hér segir Agabus svo fyrir, að mikil hungursneyð muni koma yfir alla heimsbyggðina. Seinna spáir hann því, að Páll muni verða hnepptur í varðhald (sjá Post 21.10-12).

11.28 á dögum Kládíusar: Kládíus var keisari Rómaveldis á árunum 41. til 54. e. Kr. Á ríkisstjórnarárum hans bjuggu þegnar heimsveldisins við frið og stöðugleika. Það varð vexti og viðgangi frumkirkjunnar til framdráttar.