Heiðingjar (á ensku gentiles af latneska orðinu “þjóð”) nefndu Gyðingar alla þá, sem ekki voru gyðingatrúar. Afkomendur Nóa og fjölskyldu hans dreifðust um heim allan og urðu með tímanum að mörgum, ólíkum þjóðum (1Mós 10). Samkvæmt frásögn Fyrstu Mósebókar hagaði Guð því svo til, vegna illrar breytni þessara þjóða, að þær urðu hver annarri framandi og skildu ekki hver aðra af þeirri ástæðu, að þær töluðu hver sína tungu (1Mós 11). Þá útvaldi Guð Abraham og Söru og kvaðst mundu koma því til leiðar, að þau og niðjar þeirra yrðu “öllum ættkvíslum jarðarinnar” til blessunar (1Mós 12.1-3). Seinna brýndi Salómon konungur það fyrir þegnum sínum að þeir skyldu vera mildir og bóngreiðir við aðkomufólk til þess að það heiðraði Drottin, tilbæði hann og þakkaði honum (1Kon 8.41-43).

Spámenn Ísraelsþjóðar margleiddu fólkinu það fyrir sjónir, að Guði væri mikið í mun að aðrar þjóðir lærðu að lofa hann (Jer 4.2), enda þráðu þær að kynnast Drottni Ísraels (Jes 42.1-4; 51.4-5). Ef lýður Guðs reyndist honum hlýðinn, myndi hann sýna öðrum þjóðum hollt fordæmi og verða þeim fyrirmynd (Jes 61). Í spádómsbók Jónasar segir frá því, er Guð, að eigin frumkvæði, auðsýndi miskunn erlendri þjóð, sem aukin heldur var óvinveitt Ísrael. Einn dag í framtíð mundi Drottinn allsherjar ríkja yfir öllum þjóðum og þær taka höndum saman um að vegsama hann (Slm 47.8-9; 86.8-9). Í ríkinu, sem Guð setti þá á stofn, mundu þjóna honum “allir lýðir, þjóðir og tungur” (Dan 7.14).

Í Nýja testamenti blessar Símeon barnið Jesú og segir það muni verða hjálpræði, “ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar” lýð Guðs, Ísrael. Jesús kappkostar að lækna einnig þá, sem ekki eru Gyðingar, eins og t.d. manninn, sem haldinn var illum anda í byggð Gerasena, þar sem flest var af grískum toga: fólk, byggingar og lífshættir (Mrk 5); daufa og málhalta manninn úr Týrusar- og Sídonarbyggðum (Mrk 7.31-37), og ungan svein rómverska hundraðshöfðingjans (Matt 8.5-13). Postularnir eru sammála um að Guð taki opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem hann kann að vera (Post 10.35). Og Páll postuli áréttar, að bæði Gyðingar og heiðingjar, sem trúa því að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist, heyri allir til hinum nýja Guðs lýð, án undantekningar (Gal 2.11-16). Höfundur Opinberunar Jóhannesar fagnar því, að Jesús skyldi deyja fyrir syndir alls heimsins, svo að konungsríki Guðs megi samanstanda af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð (Opb 5.6-10). Allir geta því gengið inn í hið allrahelgasta og notið þeirra forréttinda, sem fyrrum heyrðu aðeins prestum Ísraels.