23.1 Pílatus: Sjá athugagrein við 13.1.

23.2 bannar að gjalda keisaranum skatt: Sjá athugagrein við 20.22. Þetta hafði Jesús að sönnu ekki gert, en ráðið vildi gera hann toryggilegan í augum rómversku yfirvaldanna.

23.2 Kristur: Sjá athugagreinar við 2.11 og 3.15. Rómverjar réðu lögum og lofum í landinu og því gat enginn sagst vera konungur, nema þeir veittu honum slíka tign.

23.5 Júdeu…Galíleu: Sjá athugagreinar við 4.44 (Júdea) og 1.26 (Galílea).

23.6,7 Galílei…umdæmi Heródesar: Heródes Antípas, sonur Heródesar mikla, var fjórðungsstjóri í Galíleu um þessar mundir. Sjá athugagreinar við 3.1 og 9.7. Pílatusi var óljúft að fjalla um þessar kærur og sendi því Jesú til Heródesar. Heródes var staddur í Jerúsalem vegna páskahátíðarinnar, en hafði annars aðsetur í Tíberías við Galíleuvatn.

23.13 æðstu prestana, höfðingjana og fólkið: Sjá athugagrein við 22.4 (æðstu prestana). „Fólkið“ kann að vera hópur manna sem safnast hafði saman, en tæpast Jerúsalemsbúar í heild og enn síður þjóðin öll. Í þröngum götum Jerúsalemsborgar fór mikið fyrir mannsöfnuði þó ekki væri fjölmennur.

23.18 Barrabas: Nafnið þýðir „sonur Abba.“ Barrabas var upphlaupsmaður sem unnið hafði víg (sjá og Matt 27.15-20; Mrk 15.6-11).

23.20 Krossfestu: Fólkið krafðist þess að Jesús yrði krossfestur. Krossfesting var aðferð Rómverja til þess að taka menn af lífi. Það sem Jesú var gefið að sök var meint óhlýðni við valdhafa en að hann hefði brotið gegn lögmáli Móse. Sjá „Krossfesting“.

23.26 Símon nokkurn frá Kýrene: Kýrene var borg í Norður-Afríku (sjá kort á bls. 2377). Símon var trúlega í Jerúsalem af tilefni páskanna og hátíðar ósýrðu brauðanna.

23.31 sé þetta gert…hvað mun þá verða um hið visna?: Þessi málsháttur merkir líklega „ef þetta getur hent þann saklausa, hvað þá um hinn seka?“

23.33 Hauskúpa: Nafnið gæti verið komið til af því að þessi staður fyrir utan borgarmúrinn er nærri stórum kletti sem í laginu er ekki ólíkur höfuðkúpu af manni, eða jafnvel af því að þarna krossfestu Rómverjar sakamenn.

23.34-35 Kristur Guðs, hinn útvaldi: Sjá athugagreinar við 2.11 og 3.15.

23.36 edik: Vín, sem eftir varð í vínþrónni, súrnaði og var notað sem edik. Fyrir krossfestinguna buðu hermennirnir Jesú vín galli blandað, en hann vildi það ekki. Vín blandað fiskgalli var deyfilyf. Sjá og Slm 69.21.

23.28 Yfirskrift var yfir honum: Rómverjar voru vanir að festa upp spjald fyrir ofan höfuðið á hinum krossfesta og skrifa þar á það sem honum var gefið að sök. Þar eð Jesús hafði ekki verið fundinn sekur um glæp, skrifuðu þeir „Jesús frá Nasaret, konungur Gyðinga.“

23.43 Paradís: Í Septúagintu (hinni grísku þýðingu Gamla testamentis) er aldingarðurinn Eden nefndur Paradís. Sjá „Paradís“.

23.45 fortjald musterisins: Annað af tveimur fortjöldum í musterinu skildi að „hið heilaga“ og „hið allrahelgasta.“ Þangað inn mátti enginn koma nema æðstipresturinn og það aðeins einu sinni á ári. Það er þetta fortjald sem trúlega er átt við hér.

23.46 Faðir: Sjá athugagrein við 9.26. Sjá og Slm 31.5.

23.50-51: Jósef…frá Arímaþeu, borg í Júdeu: Arímaþea var lítið þorp á hæðóttu landi, sem nefndist Efraím, um 30 km. norðvestur af Jerúsalem. Jósef var maður auðugur (Matt 27.57) og gat því borgað Pílatusi og vörðunum, hafi þess verið þörf. Jósef hætti virðingu sinni sem ráðsherra í Jerúsalem með því að gangast fyrir útför Jesú.

23.53 sveipaði línklæði og lagði í gröf: Líkklæðin voru af lérefti. Sumir Gyðingar lögðu sína dauðu til hinstu hvíldar í grafhýsum, sem höggvin voru í kalksteinskletta. Grafarmunninn var varla nema metri á hlið. Utan við hann var höggvin rauf í klettagólfið og í henni komið fyrir kringlóttum steini sem velta mátti frá og fyrir. Sjá „Greftrun“.

23.54 aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd: Sabbatinn, hvíldardagur Gyðinga. Hann hófst um sólarlag á föstudegi. Ekkert mátti vinna á hvíldardaginn og ekki heldur jarða lík. Sjá athugagrein við 4.16 (Sabbatinn).

23.56 ilmjurtir: Líklega myrra og alóe (sjá Jóh 19.39). Margar þjóðir Mið-Austurlanda notuðu alóe sem lyf og til þess að smyrja dauðra manna lík. Hvorki vex myrra né alóe í Palestínu og voru þessar jurtir innfluttar og því dýrar.

23.56 Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir: Þegar konurnar höfðu búið ilmjurtirnar og smyrslin, urðu þær að fresta fyrirætlun sinni vegna hvíldardagshelginnar (sjá 2Mós 20.10; 5Mós 5.14). Það var ekki fyrr en á sunnudagsmorguninn sem þær gátu lagt af stað til grafarinnar.