15.1,2 hinn sanni vínviður…beri meiri ávöxt: Jesús líkir sér við stofn vínviðar með mörgum greinum. Víngarðseigandi þarf að klippa af vínviðnum visnaðar greinar sem engan ávöxt bera, því að annars spilla þær fyrir uppskerunni.

Aðeins lifandi greinar á stofninum (Jesú) bera ávöxt (15.5). Jesús ætlast til þess að lærisveinar hans beri þann „ávöxt“ sem er kærleikur til Guðs og manna. Lýð Guðs, Ísraelsþjóðinni, er sums staðar í helgiritum Gyðinga jafnað við víngarð, sem ekki ber þann ávöxt sem eigandi hans ætlast til (Jes 5.1-7).

15.6 greinunum…visnar: Greinar á vínviði sem ekki bera ávöxt eru sniðnar af stofninum (15.1,2) og brenndar.

15.8 mikinn ávöxt og verðið lærisveinar: Sjá athugagrein við 15.1,2.

15.15 þjóna: Gríska orðið sem þýtt er með „þjónn“ í íslenskum þýðingum Nýja testamentis merkir „þræll í eigu annars manns,“ en ekki sá sem ráðinn er upp á kaup til þess að inna af hendi tiltekið verk. Þrælar stóðu því á engan hátt jafnfætis húsbændum sínum og húsbændurnir mundu aldrei hafa talað við þá eins og jafningja sína, líkt og þegar vinir ræðast við. Sjá „Þrælar og þjónustufólk á dögum Jesú“.

15.16 ávöxt sem varir: Sjá athugagreinar á bls. 15.1,2 og 15.8.

15.18 heimurinn: Sjá athugagrein við 12.31.

15.21 allt þetta munu þeir yður gera: Jesús segir, að þeir sem eru „upp á heiminn“ og fylgja honum ekki að málum muni koma illa fram við lærisveina hans. Sumir lærisveina hans munu verða teknir af lífi eins og meistari þeirra.

15.22 synd: Sjá athugagrein við 5.14. Jesús kom í heiminn til þess að gefa öllum mönnum færi á að snúa sér til Guðs og trúa sannleikanum. Margir kusu þó að trúa ekki hinum nýja boðskap sem Jesús flutti.

15.26 hjálparinn…sannleiksandinn: Sjá athugagrein við 1.32 og „Heilagur andi“.